-8.2 C
Selfoss

Miðaldabókmenntir eiga hug minn flesta daga

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Andri M. Kristjánsson

Andri M. Kristjánsson er eiginmaður, faðir, bókmenntafræðingur og er að skrifa doktorsritgerð í bókmenntafræði sem fjallar um frumsömdu íslensku riddarasögurnar og hlutverk efnislegra fyrirbæra í frásögnum og byggingu íslensku riddarasagna. Andri er uppalinn Selfyssingur en hefur búið um hríð í Reykjavík.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Þessa dagana er ég helst að lesa fyrir börnin mín. Dóttir mín er nokkuð spennt fyrir Harry Potter í augnablikinu og við erum að lesa sjöttu bókina um þessar mundir. Tvíbura-strákarnir mínir eru hins vegar á smá Torbjarnar Egner tímabili og við höfum verið að lesa saman Dýrin í Hálsaskógi og Karíus og Baktus en þeir hafa alveg sérstakt dálæti á Kardemommubænum og þá sögu hef ég örugglega lesið 5 – 6 sinnum á þessu ári. Á meðan við erum í sumarfríi gefst mér oft ekki mikill tími til lesturs en á kvöldin glugga ég stundum í nokkrar riddarasögur, sem ég þarf að skrifa um þegar ég kem til baka úr fríinu.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ef við erum að ræða samtímabókmenntir þá eru það knappar og vel meitlaðar bækur sem höfða best til mín og ljóðabækur. Það er svo mikil list að koma hlutunum frá sér í stuttu máli og á þann hátt að það snerti lesandann. Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur er frábært dæmi um slíka bók. Annars eru það miðaldabókmenntirnar sem eiga hug minn flesta daga og þá sérstaklega íslenskar miðaldabókmenntir á 14. og 15. öld. Þetta eru stórkostlega vanmetnar aldir í íslenskri bókmenntasögu enda hafa þær fengið nokkuð slæma en óverðskuldaða útreið í gegnum tíðina.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Jú það var nú víst mikið lesið fyrir mig þegar ég var barn, bæði góðar og alls konar bækur en það eru svona nokkrar sem standa upp úr og eru örugglega nokkuð dæmigerðar. Bækur eins og Ronja ræningjadóttir og Bróðir minn ljónshjarta voru áhrifamiklar og þá sérstaklega man ég eftir hvað mér þótti sú síðarnefnda vera sorgleg. Ég man líka eftir að Einar Áskell var í uppáhaldi hjá mér, eins og eflaust hjá mörgum. Það er mér þó minnistætt að í einni bókinni borðaði Einar banana inni í þvottahúsi og eftir það var mér það mikið í mun að gera slíkt hið sama. Ég man eftir nokkrum skiptum þar sem ég sat á gólfinu í þvottahúsinu heima og borðaði banana eins og Einar Áskell gerði. Eins man ég vel eftir bókum eins og Palli var einn í heiminum og bókunum um Lúlla eftir Ulf Löfgren en það er án efa lestrarhæfileikum móður minnar að þakka, sem lagði sig fram um að lesa með sérstakri rödd fyrir hverja persónu.

Segðu frá lestrarvenjum þínum.

Ætli lestrarvenjur mínar séu ekki frekar óvenjulegar miðað við hinn hefðbundna lesanda en örugglega mjög á pari við hinn hefbundna bókmenntafræðing. Síðustu misseri hef ég verið að skrifa doktorsritgerð um frumsömdu íslensku riddarasögurnar sem voru skrifaðar allt frá um 1300 fram á 20. öldina, þó ég sé aðallega að skrifa um 14. aldar sögur. Þar af leiðandi les ég mjög mikið af bókmenntum og fræðigreinum á hverjum einasta degi þegar ég er í vinnunni og er orðinn nokkuð mettur á lestur þegar ég kem heim. Þá finnst mér gott að geta gripið í eitthvað knappt og skorinort. Það eru algjör forréttindi að fá að stunda lestur og rannsóknir á bókmenntum sem lifibrauð en það getur það verið tvíeggja sverð að því leytinu til að yndislesturinn á það á hættu að verða lítill þegar bókmenntir eru viðfangsefni vinnudagsins.

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Ég oft sagt við kollega mína og aðra sem hafa nennt að hlusta á mig að það sem íslenskar miðaldabókmenntir hafi fram yfir íslenskar samtímabókmenntir og aðrar bókmenntir almennt er aðallega það að þær eru næstum allar höfundarlausar. Þar af leiðandi eru þær draumur sérhvers bókmenntafræðings, vegna þess að það er hægt að greina þær algjörlega óháð persónu höfundarins. Það vill nefnilega oft trufla okkur hvað höfundar segja utan bókennntanna, hvort þeir eru til hægri eða vinstri, íhaldsamir eða frjálslyndir, andlega eða veraldlega þenkjandi, ríkir eða fátækir, ungir eða gamlir. Oft dregur þetta athyglina frá því hvað kemur fram í textanum og hvernig bókmenntirnar eru að bregðast við sínum samtíma eða eiga í samtali við hann.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Nei ég get ekki sagt það, ekki nema það hafið verið til þess að læra fyrir próf daginn eftir, þá get ég sagt að það hafi ónefndur fjöldi bóka rænt mig svefni.

En að lokum Andri, hvernig bók myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Það yrði að öllum líkindum fræðibók, þó að ljóðabók væri einnig verðugt viðfangsefni.

_______________________________________________________

Sendið endilega tillögur að spennandi Lestrarhestum á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir