-7 C
Selfoss

Nettó safnar 5 milljónum fyrir Ljósið

Samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins hefur skilað 5 milljónum króna sem renna nú óskipt til endurhæfingar fólks sem greinist með krabbamein. Söfnunarátakinu var formlega hleypt af stokkunum 1. júlí sl. með sölu á taupokum og spilastokkum í verslunum Nettó, skreyttum verkinu Keramik sem Þorvaldur Jónsson málaði fyrir Ljósið. Þessu til viðbótar runnu 25% af söluandvirði Nice & Soft salernispappírs frá Coop til átaksins á söfnunartímabilinu.

Í tilkynningu frá Nettó segir að markmið verkefnisins hafi verið að vekja athygli á mikilvægi endurhæfingar krabbameinsgreindra og á sama tíma safna fyrir Ljósið.

„Við erum mjög ánægð að hafa fundið jafn öflugan samstarfsaðila og Nettó til að leggja með okkur grunn að vitundarvakningu og taka þátt í fjáröflun fyrir nýju húsnæði fyrir Ljósið. Þá var skemmtilegt að listaverkið sem prýddi pokana vísaði í keramikgerð en auk æfinga með sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum er hægt að spreyta sig á ýmiss konar handiðn í Ljósinu,“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins.

„Við erum þakklát fyrir samstarfið við Nettó og verður ágóði samstarfsins ómetanlegur fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þess sem nýta sér þjónustu okkar,“ bætir Sólveig við.

Júlí er mánuður Ljóssins í Nettó

Helga Dís Jakobsdóttir, markaðs- og upplifunarstjóri Nettó, segir söfnunina hafa farið fram úr björtustu vonum. Hún segir stefnt að því að héðan í frá verði júlí mánuður Ljóssins með árlegu styrktarátaki.

„Allir einstaklingar sem greinast með krabbamein eiga rétt á þjónustu Ljóssins, sama hvar þeir búa á landinu. Því fannst okkur í Nettó tilvalið að nota matvöruverslanir okkar, sem eru staðsettar um land allt, sem vettvang til að vekja athygli á Ljósinu og koma vörunum á framfæri,“

Nettó vinnur markvisst eftir samfélagsstefnu Samkaupa þar sem lögð er mikil áhersla á samfélagslega ábyrgð og fyrirtækið hefur mikinn metnað til að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu. Árlega styrkir Nettó m.a. verkefni  á sviði góðgerðarmála, æskulýðs- og forvarnarstarfa, heilbrigðs lífsstíls og umhverfismála.

Fleiri myndbönd