Ef litið er til sumarhiminsins má alloft sjá að sólin leitast við að fela sig bak við skýin eða að skýin frekjast við að koma í veg fyrir að við Frónbúar fáum að njóta hennar, enda ekki sjálfgefið hér á okkar kalda og sólarsparsama landi að við fáum langan hlýjan og sólríkan veðurkafla eins og þann sem við fengum að njóta nú í nýliðnum júlímánuði. Flestir eru þó svo vel staddir að eiga klæði sem henta til útivistar hvort sem sumarhitinn er við frostmark eða hefur í einu stökki lyft sér að tuttugu gráðu plúsmarkinu. Sjá má bjartsýnisfólkið draga fram stuttbuxurnar sem legið hafa og rykfallið í skúffum og skápum og litaglöð sumarföt kvenna eru einnig dregin fram og svo hinna sem ólundarlega líta til himins og búast stöðugt við að góðviðrinu ljúki og klæðast því af gömlum vana vatnsfráhrindandi haustfatnaði en, sleppa því að renna rennilásnum á úlpunni alveg upp að höku.
Húseigendur hlaupa til og nýta góðviðrið til að sinna ýmsum nauðsynlegum utandyraviðhaldsverkefnum sem blauta sumarið á síðasta ári gaf aldrei færi á að sinna. Verkefnin eru mörg og margvísleg: það þarf að mála þakið, bletta veðurbarna viðarklæðningu utanhús þar sem það á við og bera viðarvörn á veðraðan pallinn. Skjólveggir þurfa líka sitt viðhald og er athyglisvert að verða vitni að mismunandi litasmekk og sjálfsstæði húseigenda og þó einkum þeirra sem búa í raðhúsalengjum og láta ekki neitt rugla sína litagleði, því þó nágranninn hafi í síðustu viku málað sína veggi gula þá finnst öðrum fallegra að skarta brúnu hjá sér og hvorugum hefur dottið í hug að hafa samráð sín á milli með litaval áður en lagt var af stað og útkoman stingur í augu.
Fólk er einnig mishugmyndaríkt með sumarskreytingar við hús sín; margir setja blóm í beð og potta, aðrir skreyta með laufguðum lágvöxnum trjáplöntum, gjarnan blómstrandi, og enn aðrir bæta við ýmsum skrautmunum. Svo eru þeir sem ávalt skáka okkur hinum með auðugu hugmyndaflugi sínu og stilla upp vetrardekkjum bíla sinna og öðru dóti við inngang og aðkomu húsa sinna. E.t.v. eru einhverjir sem ekki kunna að meta slíkar skreytingar, en við lifum í frjálsu landi og síst af öllu má skerða sköpunargleði hinna sjálfstæðu og hugmyndaríku með smámuna- og afskiptasemi.
Ávallt gleður það sinnið að sjá léttklæddar mæður ýmist á leið með börn sín fótgangandi undir skýléttum himni til glæsilegra leikvalla sem víða má finna og þau börnin sem eldri eru þeysast gjarnan á undan á velútbúnum reiðhjólum. Unglingarnir bruna síðan hjá á rafhlaupahjólum misvel búnir með tilliti til öryggis þeirra sjálfra og gjarnan með farþega fyrir aftan sig, en þannig er það jú að vera unglingur að láta öryggisreglur og áhættur ekki trufla sig við daglegar athafnir og leik.
Túnin eru fagurgræn og fulllaufguð tré sem háðu tvísýna baráttu við Veturkonung fram eftir köldu vori hafa greinilega haft sigur og sjaldan verið meira augnayndi. Skemmtileg tilraun við gróðursetningu Epla og Plómutrjáarsprota var gerð í mínum heimabæ Selfossi síðastliðið haust og frameftir vori virtist sem þau hefðu tapað slagnum við veðurguðina, en hlýr og vindhægur júlímánuður virðist hafa bjargað því sem bjargað varð og eru sprotarnir nú rúmlega metersháir, líflegir og líklegir til að skapa sér tilverurétt við erfið skilyrði. Verður gaman að fylgjast með hverju fram vindur með þá á næstu árum. E.t.v. munum við geta notið þroskaðra epla og plóma er fram líða stundir, eftir nokkur ár og e.t.v munu aðrir fylgja Í fótsporin svo áður en langt um líður fari að sjást ávaxtatré í húsagörðum fólks víða.
Erlendis frá berast fréttir af :manntjóni, ofsahita, gróðureldum og skaðaregni sem veldur miklu tjóni á mannvirkjum og heimilum fólks ásamt flóðum af völdum hnattlægrar hlýnunar af mannavöldum. Hér heima kætumst við ákaflega ef hitinn að sumarlagi dansar við 15-18 plúsgráðurnar. Fyrripart sumars fengu austfyrðingar og norðlendingar að njóta veðurblíðu og svo sunnlendingar og vestlendingar nú um mitt sumar og verður spennandi sjá hverjir njóta síðan þess sem útaf stendur sumars. Á sama tíma hafa meginlandsbúar margir hverjir þurft að búa við 30-40 plúsgráður auk annara veðurfarslegra öfga. Er ekki bara best þrátt fyrir allt að búa á Íslandi?
Ómar V. Franklínsson
Selfossi.