3.9 C
Selfoss

Nautakjötspottréttur og Þjóðhátíðar-Hjónabandssælan hennar ömmu Gunný

Sigurður Sigurðsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil fyrst og fremst þakka honum Ársæli Einari, oftast kallaður í daglegu tali Hjónaballasæli eða Hælsæli,kærlega fyrir þessi áskorun. Ég hef nú lúmskt gaman af því að standa í eldhúsinu og elda en þá þarf ég að hafa góða uppskrift mér við hönd þar sem ég get ómögulega eldað án þess að hafa leiðbeiningar hjá mér. Því hentar þessi uppskriftar gluggi vel til þess að ég komi uppskriftum á framfæri sem ég hef mikið dálæti af.

Ég ætla að bjóða uppá tvær uppskriftir og mæli ég ekki með því að borða þetta sama kvöldið þar sem sennilega er ekki pláss í maga þó stór sé. Önnur uppskriftin kemur frá móður minni en hún er mikill ástríðu kokkur þó ekki sé minna sagt. Fyrirvari á þessu er gerður að mögulega fékk móður mín uppskriftina í sjónvarpsþætti eða á öðrum prentmiðli. Ef ég eignast gúllas þá elda ég bara þennan rétt og ekkert annað því annað væru vörusvik við þann sem eldað er fyrir.

Nautakjötspottréttur

1 kg af nautakjöti eða öðru kjöti t.d. kindasnitsel er mjög gott.
1 rauð paprika
1 græn paprika
½ sellerý
½ l rjómi
2 piparostar

Steikið gúllasið til að loka því, ekki á of háum hita. Kryddið með salti og pipar, setjið svo vatn á pönnuna og látið þetta malla á vægum hita í 60 mín.

Setjið svo gúllasið í botn á eldföstu móti (helst með loki), kveikið á ofninum og stillið á 170°C undir og yfir.

Saxið grænmetið smátt og mýkið á pönnu, bætið ¼ l af rjóma út í og látið malla í 1-2 mín, þar til grænmetið er orðið mjúkt. Setjið svo grænmetið yfir kjötið.

Skerið ostinn í bita og setjið, ásamt restinni af rjómanum á pönnu og bræðið kekklaust saman (passa að hræra vel svo það brenni ekki).

Sósunni er síðan hellt yfir grænmetið og hitað í ofni þangað til það verður fallega gyllt.

Gott er að útbúa réttinn deginum áður.

Mikilvægt er að hafa hvítlauksbrauð, hrísgrjón og gular baunir með þessum rétt.

Nú vill ég einnig láta fylgja hér með uppskrift frá ömmu konunar minnar, henni Ömmu Gunný, en það er hin heimsfræga þjóðhátíðar hjónabandssæla. Verður uppskriftin birt hér í minningu hennar þar sem allir eru nú í óða önn að baka fyrir hvítu tjöldin á þjóðhátíð og er sambýliskona mín engin undantekning þar á.

Hjónabandssælan hennar Ömmu Gunný

150 gr smjör
170 gr Haframjöl
160 gr Sykur
180 gr. Hveiti
1 Tsk Matarsóti
Rabbabarasulta
Salt

Byrjið á því að kveikja á ofninum og stillið á 200°C blástur. Takið ofnskúffu og klæðið hana með smjörpappír. Hrærið saman smjör og sykur. Setjið svo haframjölið, hveitið, matarsódann og saltið saman við. Hrærið þar til allt er vel blandað saman. Takið helminginn af deiginu og pressið niður á smjörpappírinn og passið að það sé jafn þykkt allstaðar. Smyrjið þá rabbabarasultu yfir allt deigið og setjið restina af deginu yfir. Bakið í ofni í u.þ.b. 25 mín.

Njótið vel,

Takk fyrir mig! Gleðilega þjóðhátíð.

Ég vil skora á hann Einar Þór Ísfjörð þúsundþjalamann og væri ég helst til í að fá viku matseðil frá honum þar sem maðurinn er vaxinn eins og grískt goð. Ég veit að menn vilja fá upplýsingar um hvað menn eins og hann láti ofan í sig.

Fleiri myndbönd