-11.4 C
Selfoss

Kaffikarlarnir fara í ferðalag

Vinsælast

Flesta morgna koma heiðursmenn saman í Bókasafni Árborgar. Þeir dreypa á kaffi og ræða allt milli himins og jarðar, þakklátir lífinu fyrir allar gjafir þess.

Vorferðin var farin í maílok upp í Hrunamannahrepp. Guðmundur Tyrfingsson ljáði bíl og Þórður Sigurðsson frá Stóru-Sandvík var undir stýri, öllu vanur til sjós og lands. Þegar allt kom til alls fjölgaði kaffikörlunum verulega og urðu ferðafélagarnir þrjátíu og fimm. Veðrið var með þeim hætti að dagurinn boðaði fyrsta alvöru sumardaginn. Á slíkum dögum eiga Gullhrepparnir ekki sinn líka.

Á hreppamörkum var mættur Jón Hermannsson á Högnastöðum, ekki skorti okkur því leiðsögnina. Jón þekkir hvern hól, fjöllin og fólkið í hreppnum í fimm ættliði. Fyrsti áfangastaður var prestssetrið Hruni. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson hafði lofað að taka hópinn til bæna og segja sögu staðarins og minnast margra sem þar þjónuðu. Valdimar Briem fékk mikið lof enda á hann 85 sálma í sálmaskránni, menn risu úr sætum og sungu einn af sálmum hans. Sveinbjörn Sveinbjörnsson hefur lengst allra setið í Hruna, mörgum minnisstæður fyrir hressilegt tungutak og enga hálfvelgju.

Séra Óskar segir frá Hruna frægasta dansi Íslandssögunnar. Ljósmynd: Páll Imsland.

Óskar sagði okkur frá Hrunadansinum og hinum lífsglaða presti sem vildi í gleði sinni taka ,,einn hring enn móðir mín.” Móðirin Una bað hann aftur og aftur að hætta og ögra ekki myrkraöflunum. Presturinn tók einn hring enn og kirkjan sökk, farið upp á hjallanum sést þar sem kirkjan stóð. Óskar bætti við að margir haldi að nú steðji hætta að Hruna.  Þar starfi glaðsinna prestur og kona hans heiti Una.

Það var býsna þétt setinn bekkurinn í Hrunakirkju. Ljósmynd: Páll Imsland.

Óskar fór hlýjum orðum um Jarlinn Gissur Þorvaldsson sem lék sér sem barn í hlaðvarpanum enda alinn upp í Hruna. Þegar Gissur kom heim í Hruna með hatt Jarlstignarinnar sagði móðir hans, „þessi hattur minnir bara á hetturnar Gissur minn,“ síðan bera þessi tignarlegu fjöll Tungnamanna heitið Jarlhettur.

Þeir Selósmenn, Stefán Jónsson frá Þverspyrnu fermingarbarn kirkjunnar og Hilmar Björnsson trésmiður voru í hópnum en Stefán bætti mjög aðstöðu sóknarbarnanna og lagfærði harða og vinkilbyggða bekkina, gerði fólkinu bærilegra að hlusta á guðsorðið. Hilmar dró hins vegar upp fornan nagla úr kirkjubekknum og veifaði eins og Skarphéðinn í brennunni jöxlunum úr Þráni Sigfússyni. Loks fór Óskar með söfnuðinn í safnaðarheimilið. Brúnin lyftist á mörgum, presturinn dró fram besta messuvínið sem kaffikarlarnir höfðu smakkað. Mörgum fannst sem syndirnar hyrfu á einu augabragði. Óskar er magnaður prestur, flytur hvað bestar ræður yfir mönnum á burtfarardaginn. Einhverju sinni hélt hann svo magnaða ræðu, mér varð að orði: „þetta var mögnuð ræða Óskar minn, mann fer bara að langa til að deyja þegar maður heyrir svona ræðu.

Sólheimasafnið

Næst var farið að Sólheimum til Esterar Guðjónsdóttur og Jóhanns Brynjólfs Kormákssonar. Þau hafa byggt nýtísku fjós en í gamla fjósinu og í hlöðunni hafa þau komið upp frábæru safni, Samansafninu á Sólheimum. Þar inni er margt skemmtilegt frá æskudögum gestanna, minjasafn, gamlir innanstokksmunir, traktorar, vélar og glæsilegir antikbílar, m.a. drossía Emils Gunnlaugssonar á Flúðum. Mesta athygli vakti ráðherrabíll þess fræga fótboltamanns og ráðherra, Alberts Guðmundssonar.

Að Kluftum

Næst var haldið að hinum fræga bæ Kluftum, þar fæddist Huppa formóðir allra íslenskra kúa. Kluftir fóru í eyði 1954, bræðurnir Garðar og Brynjólfur Gestssynir voru í ferðinni en hér slitu þeir barnsskónum. Ævintýri gerast enn, nýtt íbúðarhús er risið á Kluftum og þar búa skógarbændurnir Björn Bjarndal og Jóhanna Róbertsdóttir. Björn starfaði hjá Skógræktinni og var framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga. Björn var heima og í veðurblíðunni gerði hann vel við gestina, fræddi þá um söguna og áform þeirra að eignast og endurreisa Kluftir og setjast þar að. Birni mæltist vel enda mælskumaður úr jarðvegi ungmennafélagshreyfingarinnar. Tækni nútímans er komin að Kluftum, rafmagn og ljósleiðari og svo virkjuðu þau jarðvarmann með varmadælu og spara kyndinguna. Ræðuna hélt Björn við heita pottinn og sagði frá fjölskylduvininum, refnum Skugga sem læðist að pottinum, nýtur ylsins og fær stundum kjötbita í kjaftinn.  Björn rakti sögu Klufta og gerði Huppu skil. Hann undirbýr Huppudag 2026, þá verða hundrað ár frá fæðingu ættmóðurinnar. Gestirnir báðu nú búfræðikandidatinn Guðmund frá Hraungerði að flytja minni Huppu.

Bræðurnir frá Kluftum, Garðar og Brynjólfur Gestsynir ásamt núverandi Kluftabónda, Birni Bjandal. Ljósmynd: Páll Imsland.

Pikkföst rúta

Björn taldi Þórði trú um að gamli vegurinn að Kluftabænum væri fær rútum. Þórður kallar ekki allt ömmu sína, lét til leiðast og þræddi hinn mjóa veg en sá að þetta var glæfraferð, hvergi hægt að snúa við. Hann skipaði ferðafélögunum að ganga síðasta spölinn að bæjartóftunum, enginn sá eftir því og bræðurnir Garðar og Billi voru komnir heim. Þórður tók hins vegar að bakka rútunni, í einni beygjunni fór rútan of langt út í kantinn. Þórður hljóp út, sló saman höndunum og sagði „ég hreyfi hana ekki fyrr en kemur jarðýta.“ Samkoman þagnaði, Björn bóndi dó ekki ráðalaus og hringdi að Sólheimum, ræsti út Ingvar, ungan og vaskan. Þarna í sólskininu lágu ferðafélagarnir eins og hráviður um alla móa. Ekki væsti um þá, sólin bakaði þá eins og á Tene, seðlabankastjóri fékk þó enga tásumynd. Rútan var hengd aftan í stærsta traktor Hrunamanna. Obbisí, hún losnaði.

Stóru hestöflin í sveitum landsins í dag eru fær um allt. Ljósmynd: Páll Imsland.

Aldís heiðrar hópinn

Nú var haldið til byggða og komið á Hótel Flúðir. Margrét Runólfsdóttir skeinkti sína síðustu máltíð á hótelinu, búin að selja ungum athafnamönnum hótelið.

Aldís Hafsteinsdóttir sveitarstjóri heiðraði hópinn. Aldís er sigursæll stjórnmálamaður og hefur unnið glæsilega kosningasigra í Hveragerði, hafði nærri 70% fylgi þegar best lét. Fyrir henni fór eins og mörgum hetjum, hún féll í síðustu kosningum. Hún var reist við á fyrsta degi, nú sem sveitarstjóri Hrunamannahrepps með nýjum meirihluta sem Jón Bjarnason í Skipholti fer fyrir. Aldís er á heimavelli og einn reyndasti sveitarstjórnarmaður landsins. Nú er Hrunamannahreppurinn heitasta sveitarfélag landsins með höfuðborg sína á Flúðum og heita vatnið gæti annað allri Árnessýslu.

Sveitarstjórinn mærir Gullhreppinn. Ljósmynd: Páll Imsland.

Yfir Hvítá

Við ókum nú yfir Hvítá um Bræðratungu og þær miklu brýr sem breyttu landslagi uppsveitanna. Nú var tekin hestaskál við hestastein Bjarna Kristinssonar kaupmanns á Brautarhóli. Hann bauð gestunum í gróðurhús og bar fram kræsingar sprottnar undan orku móður jarðar og sólinni. Jafnframt veitti hann guðaveigar í staup, sagði sögur og við skynjuðum fljótt að Biskupstungurnar búa ekki síður yfir sjarma en hrepparnir. Að leiðarlokum var haldið niður Grímsnesið góða úr Gullhreppunum og Sultartungum í Svarta-Flóa eins og Ögmundur Pálsson biskup orðaði það.

(Kaffikarlarnir)

(Ljósmyndir: Páll Imsland)

Nýjar fréttir