-10.3 C
Selfoss

Flúðir um Versló 2023

Vinsælast

„Hátíðin verður fallegri og fallegri með hverju árinu“

Um verslunarmannahelgina fer fram Bæjar- & Fjölskylduhátíðin Flúðir um Versló. Er þetta í 6. skiptið frá 2015 sem hátíðin er haldin.

„Tvö ár duttu út vegna pestarskratta en dagskráin er í nokkuð föstum skorðum á milli ára þó að einhverjar nýjungar líti sífellt dagsins ljós. Við fækkuðum dansleikjum á hátíðinni þetta árið og er það í okkar sífelldu leit að fullkomnu plani fyrir fjölskylduhátíð. Nýtt á dagskránni þetta árið er til dæmis Brekkusöngur barnanna sem mun fara fram á sunnudeginum klukkan 17:00 á Sæsabar og er mikil tilhlökkun hjá okkur fyrir þeim viðburði. En auðvitað eru stærstu atriðin nokkuð þekkt eins og til dæmis Furðubátakeppnin sem er að halda uppá 35 ára afmæli í ár. Hún fer fram á sunnudeginum klukkan 15:00, við brúna yfir Litlu-Laxá. Þá þarf ekki að kynna Traktoratorfæruna sem er vinsælasti akstursíþróttaviðburður Íslands ár hvert. Það er mikið fjör og drullumall. Og verður boðið upp á óvænt atriði í lokin á þeim viðburði, sem fer fram í Torfdal klukkan 15:00 á laugardeginum,“ segir Bessi Theodórsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, í samtali við Dagskrána.

Sæsabar á Flúðum verður nokkurskonar heimavöllur hátíðarinnar. Þar er hægt að versla miða á veglega skemmtidagskrá í félagsheimilinu og þar má líka nálgast allar upplýsingar um hátíðina í heild. Upphitun fyrir helgina verður á Sæsabar, fimmtudaginn 3. ágúst, þegar Hlynur Snær kemur og spilar á pallinum.

„Kvölddagskráin er vegleg að vanda og eru það Eyþór Ingi ásamt Babies-flokknum sem byrja á föstudagskvöldinu með nokkurskonar „best of Eyþór“-dagskrá. Það verður enginn svikinn af góðri blöndu af glenzi og heimsklassa tónlist. Á laugardagskvöldinu eru svo hrikalega fallegir tónleikar með GDRN & Moses Hightower sem verður væntanlega húsfyllir á. Dansleikir verða laugardag og sunnudag og er það í höndum reynslubolta í „branzanum“ en Stjórnin spilar á laugardag og Greifarnir á sunnudag. Einnig verður brekkusöngurinn í höndum Bjössa og hinna Greifanna Brekkusöngnum verður útvarpað á Bylgjunni og í beinu streymi að öllum líkindum á visir.is,“ bætir Bessi við.

„Laugardagurinn er sínum stærstur og væri glæpur að minnast ekki á stórglæsilega barna- & fjölskylduhátíð sem fer fram á útisviði við félagsheimilið frá 12:00 á laugardegi. Mikið verður um dýrðir, leiktæki fyrir fólk á öllum aldri og skemmtun sem verður í höndum Lalla töframanns. Með honum koma fram Sylvía og Beinteinn ásamt hundinum Oreo, BMX Bros og fleiri. Allir geta fengið eitthvað gott frá Ölgerðinni til að væta kverkarnar og sitthvað verður í gangi,“ segir Bessi að lokum og bætir við að aðstandendur hátíðarinnar hlakki mikið til að hitta sem flest á Flúðir um Versló 2023.

Nýjar fréttir