-13.1 C
Selfoss

Grillaður steinbítur með pestó-pastarétti

Vinsælast

Ársæll Einar Ársælsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka honum Gumma vini mínum kærlega fyrir áskorunina.Ég ætla að töfra fram grillaðan steinbít borinn fram með pestó pastarétti. Einfaldur og góður réttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni

Steinbítur 100-250 gr. á mann
1 krukka grænt pestó
Fersk steinselja
Sítróna
500g ferskir pasta koddar með spínat&osta fyllingu
1/2L matreiðslurjómi
1 krukka rautt pestó
Paprika
Fennel

Grillaður steinbítur

Velta steinbítnum upp úr grænu pestói, ólífuolíu, salti & pipar og látinn marinerast í klukkustund.

Henda honum svo á sjóðandi heitt grill í 2-3 mínútur á hvora hlið (fer eftir þykkt fisksins). Þegar steinbíturinn er klár er gott að henda yfir hann smá steinselju og kreista sítrónu yfir.

Fyllt pasta í pestósósu

Fyrst skrefið er að sjóða pastað og steikja grænmetið en það er gert samhliða.

Hérna mæli ég með að nota vok pönnu en annars dugar venjuleg steikarpanna. Fyrst er paprika og fennel léttsteikt á pönnu í 2-3  mínútur. Hellið því næst matreiðslurjómanum yfir grænmetið ásamt rauða pestóinu og látið malla í smá stund.  Samhliða þessu er pastað soðið, þetta er ferskt pasta svo suðan tekur u.þ.b 3-4 mínútur.

Því næst er pastanu hellt út á pönnuna og allt látið malla saman í 2-3 mínútur. Gott er að krydda með salti & pipar eftir smekk.

Til að allt verði upp á 10 mæli ég með að skera niður í ferska salatblöndu.

Verði ykkur að góðu.

Ég ætla að skora á golfarann og vin minn hann Sigurð Sigurðsson. Siggi er í 16 matarklúbbum og er því enginn nýgræðingur þegar kemur að eldamennsku, haldið ykkur fast.

Nýjar fréttir