-11.5 C
Selfoss

Sexföld stækkun á fjórum árum

Hjólreiðakeppnin The Rift var ræst frá Hvolsvelli í fjórða sinn síðasta laugardag. Keppendur hjóla 100 eða 200 km leið, frá Hvolsvelli, inn á Fjallabak og til baka. Það má með sanni segja að keppnin hafi vaxið hratt, en fjöldi keppenda hefur sexfaldast frá fyrstu keppninni sem haldin var árið 2019.

Ólafur Thorarensen, markaðsstjóri Lauf Cycles á Íslandi er einn af skipuleggjendum keppninnar. „Þetta gekk frábærlega, allt til fyrirmyndar. Veðrið var frábært, við hefðum ekki getað fengið betra hjólaveður en þetta. Við vorum með rúmlega 1100 skráða þátttakendur og allt sem ég heyri frá öðrum hjólurum og fólki sem mætti á svæðið er jákvætt. Þau sem voru að vinna að keppninni úti á braut og annarsstaðar fengu ekkert nema hrós og allir voru í skýjunum eftir daginn. Samstarfið við sveitarfélagið hefur verið alveg frábært en þetta var klárlega besta og flottasta keppnin okkar núna í ár, mun meiri þátttaka hjá sveitarfélaginu en áður og við tókum vel eftir því og fögnum því mikið. Anton sveitastjóri var með allskonar hugmyndir fyrir næsta ár sem við tökum vel í. Samstarfið er búið að ganga æðislega, þetta hefur allt gengið eins og í sögu, stundum hreinlega of vel,“ segir Ólafur og hlær.

Samkeppni við túrismann

Ljósmynd: The Rift.

Flöskuhálsinn í skipulaginu hefur þó verið gistipláss fyrir keppendur sem fjölgar ört með árunum. „Mér skilst að það sé verið að byrja að byggja 120 herbergja hótel hjá Lava Center og mér er sagt að 80 af þeim herbergjum eigi að vera tilbúin í apríl á næsta ári og ég fagna því innilega ef það er rétt. En við erum að halda keppnina á há-túristatímanum svo að við erum í samkeppni við hinn almenna túrisma á Íslandi um gistinguna á þessu svæði en það bætir vonandi úr því ef fer sem horfir,“ bætir Ólafur við.

Fín innspýting í bæjarlífið

Ljósmynd: The Rift.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, var hæstánægður þegar Dagskráin náði tali af honum. „Þetta fór afskaplega vel fram, sveitarfélagið fullt af fólki og allt til fyrirmyndar. Veðrið var með okkur í liði líka, einmuna blíða sem er búin að vera hérna síðustu vikur. Keppnin sjálf fór virkilega vel fram og ég hef ekki heyrt annað en að allir hafi verið virkilega sáttir. Þetta setur skemmtilegan brag á bæinn, fín innspýting í gistingu, verslun og þjónustu á svæðinu og einstaklega vel að þessu staðið, bærinn var iðandi á laugardag og þegar fólk fór á fætur á sunnudag var eins og ekkert hefði í skorist,“ segir Anton að lokum.

Fleiri myndbönd