FEIF Youth Camp eru námsbúðir fyrir þátttakendur á aldrinum 14-17 ára á árinu. Markmið þeirra er að kynna krakka frá aðildarlöndum FEIF fyrir hestamenningu annara þjóða, auka skilning á menningarlegum mun okkar í nálgun á hestinum og að hitta ungt fólk með sama áhugamál.
Í ár sendi Landssamband hestamannafélaga (LH)10 þátttakendur frá Íslandi á aldrinum 14-17 ára sem voru valdir í ferðina og hafa aldrei áður verið teknir inn þetta margir þátttakendur frá einu landi, sem er hluti af því að um einar af stærstu sumarnámsbúðum var að ræða sem FEIF hefur haldið frá upphafi. Af þeim voru þrjár 15 ára stelpur frá Suðurlandi, þær Heiðný Edda Widnes og Sóley Vigfúsdóttir úr Hestamannafélaginu Sleipni og Hildur María Jóhannesdóttir úr Hestamannafélaginu Jökli. Sumarnámsbúðirnar voru haldnar á hestaháskólasvæðinu í Ypäjä í Finnlandi frá 14.-19. júlí.
„Fyrst áttum við að vera bara 2 stelpur sem fengum að fara en skipuleggjendurnir í Finnlandi, ásamt FEIF vildu endilega fá fleiri þátttakendur þannig við urðum á endanum 10 frá Íslandi. Við flugum út til Finnlands 13. júlí og gistum á hóteli rétt hjá flugvellinum. Næsta dag fórum við öll aftur upp á flugvöll þar sem við hittum hina þátttakendurna, en þeir komu alls frá 11 löndum. Löndin sem sendu þátttakendur í ár, auk Íslands, voru Finnland, Noregur, Svíþjóð, Belgía, Holland, Sviss, Frakkland, Bandaríkin, Þýskaland og Austurríki,“ segja stelpurnar í samtali við Dagskrána.
„Á flugvellinum var sameinast í rútur til Ypäjä. Næsta dag skoðuðum við meðal annars hestasafn og kynntumst finnska hestinum og hestamenningu finna. Einnig skoðuðum við okkur um í háskólanum. Eftir það fórum við öll saman á kynningu á því hvernig á að stýra hestvagni og hvað það er sem knapi þarf að hafa í huga þegar keppt er í þeirri íþrótt. Sex unglingar fengu að prófa að fara sem aðstoðarknappi á vagninum og voru þrír af þeim frá Íslandi. Næst komu Arnór Dan Kristinsson og Veera Sírén og sýndu okkur stóðhestinn Vegur frá Kagaðarhól en hann og Arnór Dan munu keppa á HM í ár fyrir hönd Finnlands. Um kvöldið var farið í leiki úti í góða veðrinu,“ bæta þær við.
„Næsta dag fórum við í reiðtúr á íslenskum hestum í finnskri náttúru og fengum sýnikennslu á flugskeiði frá Annika Kyrklund sem einnig er á leið á HM fyrir Finnlands hönd. Seinni partinn fórum við að vatni og prufuðum að synda þar og sum okkar prufuðu að fara í sauna. Síðan var grillað og þar gafst okkur unglingunum tækifæri á að tala saman og kynnast hvert öðru. Næsta dag fórum við í hús sem innihélt meðal annars göngubretti fyrir hestana sem hægt er setja vatn í til þess að geta þjálfað vöðvana og er þetta hluti af endurhæfingu fyrir suma hesta. Það sem var nýjung fyrir okkur var að þarna var salt herbergi sem notað er fyrir hesta sem eru veikir eða jafna sig eftir veikindi.“
Þá fengu þau tækifæri til að kynnast leðurvinnu og segja stelpurnar að það hafi verið mjög skemmtilegt. „Við fengum öll að spreyta okkur á að gera lyklakippu úr leðri með því að stimpla merki háskólans á leðrið. Eftir hádegið fórum við öll á kynningu um hestabogfimi eða bogfimi á hestum. Eftir kynninguna fengum við að prófa að skjóta af boga á æfingadýnu. Næst fengum við að kynnast og fylgjast með Siri Anttonen, sem er 16 ára finnsk stelpa, sem var að búa sjálf til skeifur undir hesta. Siri hefur verið að vera keppa í skeifnasmíði undanfarin ár og hefur unnið til fjölda verðlauna. Hún var virkilega fljót að búa til skeifu úr járnstöng. Eftir þetta tók við kynning á líffræði á hófi hestsins og fengum við að prófa að negla hóffjöður í hóf hjá Katri Kolu.Næst síðasta daginn fengum við tíma til að íhuga og ræða verkefni sem unnin voru í alþjóðlegum liðum, fórum í göngutúr með liðunum okkar og gerðum hugleiðsluæfingu. Settum saman listaverk sem gert var út þeim hlutum frá náttúrunni sem samræmdust því sem hver og einn liðsmaður var þakklátur fyrir í sínu lífi. Hvert lið sýndi afrakstur verkefnis um hvað finnska orðið Sisu þýðir en orðið á rætur sínar að rekja til fyrri heimstyrjaldarinnar þegar Finnar sigrðu Rússa, þrátt fyrir að vera helmingi færri. Í lok dags fengum við svo sýnikennslu í tamningu á hesti hjá Kari Vepsä sem segja má að sé með frekar ólíka nálgun en við þekkjum og sýndi okkur fram á að til eru fleiri en ein leið að settu markmiði. Síðasti dagurinn var heimferðardagur og því komið að kveðjustund.“
Þar sem Íslenski hópurinn var degi lengur í Finnlandi en hinir þátttakendurnir, fékk hópurinn að heimsækja hestabúgarð í útjaðri Helsinki hjá íslandsvinunum Anki og Joha Väyrynen, en þau rækta íslenska hesta og eiga og reka hestaskóla þar sem bæði fullorðnir og börn geta komist í kynni við íslenska hestinn og fengið að farið í útreiðatúra. Þau bjóða að auki upp á reiðtíma fyrir einstaklinga með sérþarfir, bæði líkamlegar og andlegar. Á sumrin eru þau líka með sumarbúðir og þótti íslendingunum virkilega áhugavert að fá að heimsækja þau og skoða aðstöðuna hjá þeim. Þau gáfu öllum gjafapoka sem innihélt finnskt nammi frá Fazer, en sælgætisframleiðandinn er íslendingum vel kunngur og má þar nefna bæði Turkis pepper brjóstsykra og Dumle karlamellur. Einnig var að finna í pokunum frá þeim boli merkta AnkiStall sem er hestaskólinn þeirra.
Fararstjóri hópsins var Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður æskulýðsnefndar LH, nefndarmaður í æskulýðsnefnd FEIF og félagi í Hestamannafélaginu Sörla, en hún er einnig uppalinn sunnlendingur. Segir Dagbjört búðirnar hafa verið mjög vel skipulagðar og einstaklega vel heppnaðar. Dagbjört minnist einnig á að keppnisskapið hafi orðið til þess að hún tók þátt í sauna-keppni, keppni um hver gæti setið lengst í sauna og fyrir Íslands hönd hafði hún landað 2. sætinu á eftir Finnum, sem seint verða unnir í slíkri keppni. Að lokum segir Dagbjört að Finnar séu virkilega skemmtilegir heim að sækja. Hún telur margt líkt með Íslendingum og Finnum og telur þá hvað líkasta okkar þjóð af Norðurlöndunum.