-2.6 C
Selfoss

Minning um Loka frá Selfossi

Mikill garpur er fallinn frá, það var mikill heiður fyrir mig að fá að kynnast honum Loka frá Selfossi, ótrúlega fjölhæfur gæðingur. Í fyrsta skipti sem ég keppti á honum, og hans fyrsta keppni, var í meistaradeildinni, en þá enduðum við í 3. sæti í fjórgangi. Árið eftir unnum við fjórganginn og gæðingafimina árið þar á eftir með miklum yfirburðum. Loki var ekki bara góður íþróttahestur, hann var líka frábær gæðingur. Hann var CA hestur í greiningu en fyrir mér var hann gengur klárhestur og flug rúmur og mjög fylginn sér og kjarkaður og átti svo auðvelt með að hreyfa sig, hreyfingar svif og fjaðurmagn voru hans aðall, við náðum að vinna B flokk á landsmóti 2014 og með einkunn 9.39 sem ég held að sé ein hæsta einkunn sem gefin hefur verið í gæðingakeppni frá upphafi.

Eftir sigur í meistaradeildinni eitt skiptið þá var ég í viðtali og hélt ég í Loka, viðtalið dróst eitthvað á langinn og Loka fannst nóg komið og beit mig þá þéttingsfast í handlegginn þannig að ég þurfti að gefa honum olbogaskot en við fyrirgáfu hvor öðrum þetta strax. Ég man sérstaklega eftir einu kvöldi þegar ég og Ármann Sverrisson, eigandi og ræktandi Loka, og tveir aðrir góðir menn fóru með okkur út á Hellu og ég tók æfingu á Loka, viku fyrir Landsmótið 2014, við Loki tókum þrjá hringi á vellinum, síðan stoppaði ég hjá strákunum og sagði: „Ef hann verður svona framm yfir landsmót þá er ekki hægt að vinna hann“, og það stóð heima með afgerandi hætti.

Loki var ekki bara mikill gæðingur, hann var líka góður kynbótahestur og fór beint í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2020 og hefur skilað mjög eftirtektarverðum hrossum. Ég var svo heppinn að eignast undan honum nokkur frábær hross. Að endingu vil ég þakka þér Loki fyrir allar þær frábæru stundir og augnablik sem við áttum saman. Þú fórst of snemma, þitt skarð er ekki auðfyllt.

Takk fyrir Loki.

Birt með leyfi Sigurðar Sigurðarsonar 

Fótalipur frár og snarpur
fylgdi sér í keppni og leik.
Féll of snemma feikna garpur,
frægð hann náði, augað greip.

Sigurður Sigurðarson yngri

Fallinn er loki, fákurinn besti,
fallega skapaður, garpur hinn mesti.
Átökin mögnuð hjá afburða hesti,
aðdáun sannasta við hann ég festi.

Loki er fallinn, sorg býr í sinni.
Svifléttu sporin ég geymi í minni.
Afreksgrip meiri, jeg ætla að finni
enginn á gjörvallri fósturjörðinni.

Sigurður Sigurðarson eldri

Fleiri myndbönd