-4.5 C
Selfoss

Kjúklingur í satay-sósu með kúskús og spínati

Vinsælast

Guðmundur Sigurðsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka stórvini mínum honum Ingimari kærlega fyrir þessa áskorun. Ég hef nú aldrei verið þekktur fyrir mikla eldamennsku í gegnum tíðina en móðir mín og tengdamóðir hafa vonandi kennt mér eitthvað í gegnum árin. Uppskriftin sem ég ætla að bjóða uppá hefur lengi verið í uppáhaldi og hefur aldrei klikkað, sennilega vegna þess að þetta er á færi hvers sem er því þetta er svo einfalt. Kjúklingur í satay með kúskús og spínati.

Kjúklingur í satay-sósu með kúskús og spínati

Þessi uppskrift miðast við 4-5 manns.

  • 4 kjúklingabringur
  • 1 krukka af t.d. Blue Dragon Satay sósu
  • 1 pakki (100 gr) af kúskús (mæli með tómat og chilli bragði)
  • 1 krukka af fetaost
  • 100 gr af spínati
  • 1 stór og stæðileg gúrka
  • 1 dós kirsuberjatómatar
  • Dass af kasjúhnetum

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Gott að krydda smávegis. Eftir svona 5 mín af steikingu má hella satay sósunni yfir kjúklinginn og láta svo sjóða við vægan hita í svona 15-20 mín.

Á meðan kjúklingurinn mallar sjóðum við vatn og blöndum kúskúsinu við. Hrærum það duglega saman og látum standa í lokuðu íláti í sirka 5 mín.

Því næst skerum við gúrkuna og tómatana í smáa bita og skolum spínatið. Hér ræður smekkur fólks ríkjum um hversu mikið það vill hafa af beljufóðrinu.

Þá er það lokahnykkurinn. Finnum til glæsilegt matarílát og setjum ilmandi kúskúsið á botninn á því. Næst hellum við kjúklingnum með satay sósunni yfir.  Svo röðum við spínati, gúrkum og tómötum ofan á kjúklinginn og svo endum við þetta með því að skella fetaost og kasjúhnetum yfir allt saman. 

Einfalt ekki satt?

Þá er það eina sem er eftir er að njóta og brosa út að eyrum!


Ég vil skora á hann Ársæl Einar Ársælsson. Hann er matgæðingur mikill og hvað þekktastur fyrir hraða sinn við matarborðið. Ég efast ekki um að hann muni kokka eitthvað gómsætt fram fyrir okkur.

Nýjar fréttir