3.4 C
Selfoss

Kótelettan

Guðmundur Ármann.

Samfélag okkar verður aldrei betra en þeir einstaklingar sem mynda það. Við þurfum hvert á öðru að halda, við þurfum á kraftmiklu hugsjónafólki að halda, við þurfum fólk sem er tilbúið að draga vagninn, fólk sem skapar jarðveg tækifæra og fólk sem framkvæmir.

Það eru ekki margir sem geta „hakað við“ flest af því sem að ofan er nefnt, en það geta þau Einar Björnsson og Anna Stella gert með góðri samvisku. Þrett-án ára uppbygging og endalaus vinna án efa með sínu nánasta og besta fólki hefur skilað samfélagi okkar magnaðri fjölskylduhátíð, Kótelettunni tónlistar- og grillhátíð.

Kótelettan er orðin ein stærsta hátíðin sem haldin er á Íslandi og fjöldinn sem sótti Selfoss heim orðinn slíkur að hann verður vart toppaður fyrr en að ári, það er á næstu hátíð.

Við nutum öll ríkulega um liðna helgi, tónleikar, grill, fjöldi skemmtiatriða, mannlífið, fjölskylduskemmtun, samvera, fyrirtækin og þjónustuaðilar allir nutu góðs af og samfélagið blómstraði á einum af fallegustu dögum sumarsins.

Kótelettan er sannarlega „stóri bróðir“ þegar kemur að viðburðum í Árborg og viðburðirnir eru margir, fjölbreyttir og mismunandi að umfangi, en þeir eiga það allir sameiginlegt að vera drifnir áfram af ástríðufullu fólki sem brennur fyrir að auðga samfélag okkar.

Við sem erum íbúar í Árborg eigum að tryggja að það séu aðstæður og aðstaða fyrir fjölbreyttar hátíðir af öllum stærðum og gerðum vítt og breytt um sveitarfélagið okkar. Það sást best um nýliðna helgi að hugsa þarf langt fram í tímann ef við eigum að tryggja með sóma nægjanlegt pláss fyrir hátíð sem Kótelettuna til að hún geti haldið áfram að stækka og eflast.

Fjöldi viðburða eru í boði í samfélagi okkar af öllum stærðum og gerðum og við þurfum sannarlega einnig að vera vakandi fyrir þeim sprotum og að skapa þeim jarðveg til að eflast.

Við þurfum að hugsa langt til framtíðar hvað varðar rými, aðstöðu og aðstæður, þannig að menningar-, fjölskyldu- og listviðburðir hafi sem best tækifæri til að vaxa, dafna og að vera í boði sem víðast í sveitarfélaginu okkar.

Mig langar að færa þeim Einari Björns og Önnu Stellu kærar þakkir fyrir að þrjóskast áfram ár eftir ár og fyrir að fara í dag fyrir stórum hópi fólks sem gerir grill- og tónlistarhátíðina Kótelettuna að veruleika.

Það er fjöldi viðburða af öllum stærðum og gerðum framundan í samfélaginu okkar, við skulum vera dugleg að sækja þá viðburði.
Þátttaka okkar og áhugi er vítamínsprauta hvers viðburðar og hvatning til þeirra sem af ástríðu og hugsjón leggja sig fram um að auðga samfélag okkar.

Guðmundur Ármann

Nýjar fréttir