-2.2 C
Selfoss

Naut og Bernais með öllu tilheyrandi

Vinsælast

Fannar Geir Ólafsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka Dabba vini minum fyrir áskorunina.

Ég er búinn að prufa tortilla uppskriftina sem Litli grís sendi inn í blaðið í síðustu viku, hún var alveg hreint hrínandi góð hjá litla prins.

Ég ætla að senda inn mjög einfalda leið að geggjaðri helgarsteik sem tekur u.þ.b. 5-15 mínútur í undirbúning, fer eftir umferð.

Naut og Bernais með öllu tilheyrandi

Nauta ribeye, lund eða fille 200-300 gr. á mann
Bökunarkartöflur
Salt
Pipar
Hvítlaukur
Smjör
Olía
Blóðberg
Debit eða kreditkort

Takið nautakjötið og hreinsið (eða kaupið tilbúið, t.d í Kjötbúrinu) hitið pönnu og hellið smá olíu á. Á meðan pannan hitnar takið þið kjötið og kryddið með salti og pipar (ef þið eruð með marinerað þurfið þið mögulega bara að salta aðeins). Smellið kjötinu í pönnuna og brúnið þangað til það er „golden brown“. Setjið smjörklípu og pressið 2 hvítlauksgeira og 3-4 greinar af blóðbergi út í pönnuna. Látið malla þangað til smjörið er farið að karamellast, setjið þá í form og hellið smjörinu með hvítlauknum og blóðberginu yfir og stingið hitamæli í miðjuna á steikinni. Hafið ofninn stilltann á 130°C og hafið hitamælinn stilltan á 54°C, takið kjötið útúr ofninum í 54°C og látið standa í a.m.k. 10 mín. svo kjötið nái að jafna sig, eftirhitinn ætti að taka kjötið uppí 56-57 gráður. Fullkomið fyrir medium rare steik. Ef það kemur einhverntímann sumar og ykkur langar að grilla þá gerið þið nákvæmlega sama nema bræðið smjörið með hvítlauknum og blóðberginu og penslið reglulega yfir steikina á grillinu, fáið fallegar grill rendur og lækkið hitann og takið af grillinu í 54 gráðum.

Ef þið viljið nautið well done er best að sleppa þessu öllu bara.

Ef ykkur langar að vera svaka dugleg og gera kartöflurnar sjálf getiði tekið bökunarkartöflur, skorið rendur í þær, penslað með hvítlaukssmjöri, saltað og piprað, sett inní ofn í 60 mín. á 160 gráðum.

Meðlætið

Takið veskið með ykkur og skottist út í Kjötbúr fyrir kl. 18 þriðjudaga-laugardaga og kaupið bernais-sósu, brokkólísalat og hnetumix (og kartöflur að eigin vali ef þið nenntuð ekki að gera þær sjálf). Ef ykkur langar í forrétt getiði kippt einu nauta carpaccio með ykkur.

 


Mér langar að skora á stórsmiðinn og vin minn hann Gunnar Inga. Gunnar grillar í öllum veðrum og er einstaklega góður grillari. Hans leynitrikk er að grilla frá vinstri til hægri en ekki öfugt. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort Gunnsi bjóði uppá sinn víðfræga grillaða grjónagraut eða hvort hann ætli að sitja einn á þeirri uppskrift aðeins lengur.

Nýjar fréttir