Á dögunum veitti menningar, íþrótta og frístundanefnd Hveragerðis parinu Unni Birnu Björnsdóttur og Sigurgeiri Skafta Flosasyni menningarverðlaun Hveragerðisbæjar, en saman hafa þau eflt tónlistarlífið í Hveragerði til muna.
Unnur Birna Björnsdóttir, fiðluleikari og söngkona, hefur komið fram á hinum ýmsu hátíðum í Hveragerði, haldið marga tónleika í bænum og verið við hinar ýmsu athafnir í Hveragerðiskirkju. Hún stjórnar barnakór Hveragerðiskirkju og eins hefur hún verið kórstjóri Söngsveitar Hveragerðis.
Sigurgeir Skafti Flosason, bassaleikari og hljóðkerfastjórnandi, hefur komið fram á hinum ýmsu hátíðum í Hveragerði ásamt Unni Birnu. Hann hefur verið frumkvöðull og framkvæmdastjóri hátíðarinnar Allt í blóma sem haldin hefur verið undanfarin ár í Hveragerði.