12.8 C
Selfoss

Grímsnes- og Grafningshreppi gert að hækka gjaldskrá fyrir sundlaug

Vinsælast

Innviðaráðuneytið hefur úrskurðað að gjaldskrá sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir sundlaug og íþróttamiðstöðina Borg sé ekki í samræmi við jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og þar af leiðandi ólögmæt. Ráðuneytið gefur þau fyrirmæli í áliti sínu að sveitarfélagið breyti gjaldskrá sinni og færi hana í lögmætt horf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Samkvæmt tilkynningunni barst ráðuneytinu erindi árið 2021 vegna meintrar mismununar í gjaldtöku notenda af sundlaug og íþróttamiðstöð að Borg í Grímsnesi. Samkvæmt gjaldskrá sundlaugarinnar fengu íbúar sveitarfélagsins árskort á þrefalt lægra verði en aðrir notendur.

Í svörum sínum vegna málsins taldi sveitarfélagið mismunun í gjaldskrá byggja á málefnalegum ástæðum, þ.e. til að auka lýðheilsu íbúa og almenna hreyfingu. Jafnframt hélt sveitarfélagið því fram að rekstur sundlauga væri ólögbundið verkefni sveitarfélaga og því hefði það svigrúm til að ákvarða gjaldskrá. Þá taldi sveitarfélagið að ráðuneytið hefði ekki eftirlitshlutverk með ólögbundnum verkefnum sveitarfélaga.

Í áliti innviðaráðuneytisins eru sjónarmið sem gilda um ólögbundin verkefni sveitarfélaga og gjaldtökuheimildir þeirra reifuð, auk grundvallarreglna sem gjaldtaka sveitarfélaga verður að byggja á, s.s. jafnræði og meðalhóf. Þá rökstyður álitið að það falli undir eftirlitshlutverk ráðuneytisins að taka til skoðunar hvort svitarfélög hafi gætt að almennum reglum stjórnsýsluréttar í ólögbundnum verkefnum.

Þá er horft til þess að þótt markmið um að huga að lýðheilsu íbúa kunni að vera málefnalegt, beri að gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná því. Ljóst er að ýmsar leiðir væru til staðar til að ná því markmiði að auka lýðheilsu og auka hreyfingu íbúa sveitarfélaga, svo sem með veitingu sérstakra íþrótta- og frístundastyrkja. Í álitinu segir að ráðuneytinu telji auðséð að hægt væri að ná slíkum markmiðum með verkefnum sem ekki fela í sér mismunandi gjaldtöku fyrir almenning.

Nýjar fréttir