Íþróttafélagið Suðri átti fimm keppendur sem fóru fyrir hönd Íslands á heimsleikum Special Olympics sem haldnir voru í Berlín frá 17. til 25. júní sl.
Öll stóðu þau sig með stakri prýði en María Sigurjónsdóttir vann tvö gull og tvö silfur í sínum þyngdarflokki í lyftingum, Katla Sif Ægisdóttir vann gullverðlaun í bringusundi, Birgir Örn Viðarsson vann silfur í sínum riðli í boccia, Telma Þöll Þorbjörnsdóttir vann gull í golfi og Sigurjón Ægir Ólafsson lenti í 4 – 5 sæti í lyftingum.
Lögreglan á Suðurnesjum veitti íslenska hópnum höfðinglegar móttökur við komuna til Keflavíkur og fjölmenn móttaka, fimmmenningunum til heiðurs, var í Miðbæ Selfoss þegar þau komu yfir brúna þar sem þeim var afhent gjöf frá sveitarfélaginu Árborg fyrir frábæran árangur.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra tók þátt í móttökunni ásamt fjölmörgum góðum gestum og stuðningsmönnum.