-0.7 C
Selfoss

Ærulausir óþokkar

Vinsælast

Fyrir rúmlega eitthundrað árum settust þrír menn að í Gaulverjabæ í Flóa og létu til sín taka á fjármálasviði Suðurlands ef svo má segja. Þetta voru Jón Magnússon, (1860-1931), frá Miðhúsum í Biskupstungum, fyrrum kaupmaður í Reykjavík en um tíma skráður bóndi í Gaulverjabæ. Félagar hans voru Björn Gíslason, (1878-1967), frá Húsey í Hróarstungu, sem skrifaði sig kaupmann og Erasmus Gíslason, (1877-1941), frá Rauðabergi í Skaftafellssýslu, sem hafði engan sérstakan titil en var ósvífinn braskari og fjársvikari rétt eins og hinir tveir.

Þessir menn beittu aðferðum til að hafa fé af sunnlenskum bændum sem lítt þekktar voru um þær mundir. Þeir heimsóttu vel stæða bændur birgir af koníaki sem þeir veittu ósparlega. Þegar bændur voru orðnir vel hreifir birtust pappírar í höndum þessara manna sem þeir báðu menn að skrifa nafn sitt á. Þetta voru víxlar og skuldabréf og mörgum bændum sem lítt voru kunnugir bankaviðskiptum þótti sjálfsagður greiði að skrifa nafn sitt fyrir þessa vinsamlegu og vel klæddu herramenn sem slógu þeim gullhamra og kölluðu þá vini sína.

Svo kom annað hljóð í strokkinn þegar víxlarnir og lánin féllu í gjalddaga. Þessir tungulipru menn kunnu sannarlega að skrifa skuldabréfin þannig að þau héldu að lögum og voru ekki til viðtals um að gefa neinn afslátt af kröfunum. Svo komu innheimtulögfræðingar á staðinn og hirtu eignirnar af hinum ólánsömu skuldurum, stundum aleigu þeirra. Heilu fjölskyldurnar komust á vonarvöl og dæmi voru um menn sem bundu enda á líf sitt þegar ómennin voru búin að koma þeim á kaldan klaka. Þetta mátti kallast löglegt en var siðferðilega rangt eins og Jónas frá Hriflu orðaði það svo réttilega í blaðagrein. þegar fram í sótti gripu þeir til þess að falsa nöfn manna á bréfin þegar þá vantaði undirskriftir.

Þessir ærulausu óþokkar létu greipar sópa um eignir fjölda manna á Suðurlandi á árunum 1910-1915 og höfðu af þeim ótrúlegar upphæðir áður en svikabrögðin komust í hámæli og menn fóru að vara sig á þeim. Öllu þessu fé eyddu þeir í óhófslíferni að því best verður séð enda kneyfuðu þeir sjálfir drjúgt af koníakinu. Frá þessu öllu segir í bók minni: Í skugga Gaulverjabæjar sem kom út nýlega. Þar er sagan rakin frá upphafi til enda og kennir margra grasa.

En því er verið að segja frá löngu liðnum óþokkum og illverkum þeirra? Því er til að svara að vinur minn, Páll heitinn Lýðsson í Litlu-Sandvík, sendi mér á sínum tíma áskorun um að skrifa um þessi mál. Fyrir því væru þrjár ástæður: Í fyrsta lagi þá hefðu bófarnir sest að í minni heimasveit. Í öðru lagi hefðu þessi mál alla tíð verið þögguð niður og væri mál að upplýsa hvað þarna hefði gerst. Í þriðja lagi væri nú heil öld liðin frá illverkunum og nánustu aðstandendur þessara manna komnir á annað tilverustig svo ekki þyrfti að hlífast við þeim. Ég var sammála Páli í þessum efnum en það tók mig heilan áratug að safna saman heimildum fyrir bókarskrifin.

Þarna gerðust hlutir sögulegir í meira lagi: Smygl á 21 þúsund áfengisflöskum, gjaldþrot stærsta sparisjóðs landsins. Vinskapur þrjótanna við sýslumann Árnesinga og afsögn sýslunefndar í einu lagi í mótmælaskyni. Meðreiðarsveinar og drykkjubræður en andspænis þeim grandvarir bændur og hugsjónamenn sem gerðu sitt besta til að græða sárin. Myndir eru af flestum sem þarna komu við sögu því sjón er sögu ríkari. En hér sannast sem oftar að raunveruleikinn er stundum ótrúlegri en nokkur skáldsaga.

Jón M. Ívarsson
frá Vorsabæjarhóli

Nýjar fréttir