1.7 C
Selfoss

Tvær ókeypis pop-up smiðjur í Hveragerði

Dagana 28. og 29. júní á milli kl. 15-17, verður boðið upp á Frjálslegt og flæðandi pop-up námskeið fyrir börn á aldrinum 6-10 ára í garðinum hjá Listasafni Árnesinga.

„Á námskeiðinu leikum við okkur með mismunandi efnivið og tækni til að fanga náttúruna innra með okkur og náttúruna í umhverfinu,“ segir í tilkynningu frá Listasafninu.

Fimmtudaginn 29. júní verður Frussandi flæði í Fossaflöt, pop-up myndlistar-örnámskeið fyrir fullorðna, í lystigarðinum Fossaflöt á milli kl 19-20:30. Á námskeiðinu verður skapandi flæði þar sem unnið er með vatnsliti, olíupastel og blýant.

„Hefur þig langaði á myndlistarnámskeið en ekki þorað því þú heldur að þú kunnir ekki að teikna? Þá er þetta námskeiðið fyrir þig því við teiknum ekki neitt. Leikum okkur bara með liti og línur út frá tilfinningunni innra með okkur þegar við erum í náttúrunni og svo leyfum við því að flæða á pappírinn. Aðferðin hentar öllum og engin kunnátta nauðsynleg, bara forvitni og gleði.“

Athygli er vakin á því að allur efniviður verður á staðnum en þátttakendur á báðum námskeiðum eru hvattir til að vera vel klæddir með garðstól, sessu eða púða til að sitja á. „Ekki verra að hafa eitthvað heitt á brúsa.“ Öll eru boðin velkomin og er foreldrum og forráðamönnum velkomið að mæta með börnum sínum á Frjálslegt og flæðandi.

Leiðbeinandi á báðum námskeiðum er Íris Lind Sævarsdóttir listamaður og listmeðferðarfræðingur.

Fleiri myndbönd