-1.1 C
Selfoss

Minningargrein: Árni Johnsen

Vinsælast

Það brýtur á Breka og ödudalirnir dýpka áður en brimklóin skellur á Urðirnar og sjávarlöðrið þeytist undan austanáttinni yfir byggðina á Heimaey. Þar drekkur ungviðið í sig saltan sjóinn sem flýtur um í blóði æðakerfis þeirra. Það gerir Eyjamenn öðruvísi en aðra, náttúran er þeim í brjóst borin. Þeir verða ekki allir jafn mikil náttúrubörn eins og Árni Johnsen. Hann var stæðilegur eins og Jötunn sem útsynningurinn brýtur á og tekur mestan skellin af Smáeyjum þegar ölduhæðin er komin í tveggja stafa tölu. Hann var dökkur á brún og brá með skarpar línur sem skópu svipmikið andlitið. Röddin var djúp og tónninn eins og þegar vindkviða syngur í reiðum og mastri en tónninn teygist og lendir með skell á beru bergi. Hohohó og dirrindí. Stórhöfðasvíta með öllum tilbrigðum í suðaustan 12. Þessi holling gerði Adda einstakan. Hann gekk um fjöll, berg og syllur eins og ég um stofugólf. Addi kleyf Eldey ásamt Dóru og vinum. Upp 70 metra þverhnípi án þess að líta til baka. Hann leit aldrei til baka og tókst á við lífið sem áskorun á hverjum degi. Þar kleif hann margan þverhnýptan hamarinn til að ná takmörkum sínum og endurkomu. Hann var sterkastur þegar á móti blés en langvarandi mótvindur hafði áhrif á stoðkerfið sem hann gaf engan gaum. En þegar hann skall á með logni gafst tími til að sinna hæfileikum í tónlist, semja texta og skrifa bækur. Hann var listamaður í sér og listrænir hæfileikar hans bera honum víða vitni. Hann var fenginn til að finna sterk nöfn á frægustu hljómsveitir landsins og þegar ritstjórum vantaði gildishlaðnar hnitmiðaðar fyrirsagnir í Morgunblaðið var leitað til Adda, með hans ritstíl og blæ.

Hann söng hástöfum með dóttursyni mínum þegar þeir óku Brautina. Ferð sem drengurinn gleymir aldrei með karlinum sem söng svo skemmtilega. Hann var mjúkur inn við beinið þó oftar hafi hann sýnst vera harður og fyrirferðarmikill. Hann fór á undan, var alltaf til í glens og grín. Komið þið peyjar kallaði hann á okkur Hrekkjalómana þegar við keyptum spyrta ýsu og blýanta í kassavís handa bankastjórum Seðlabankans. Þá fengu menn skír skilaboð þegar stýrivextirnir hækkuðu. Nagið blýantana sögðu Hrekkjalómarnir og komu færandi hendi og vildu fá léttar veigar í stað vaxtasúpu og svartsýni. Bölsýni var ekki til í fari Adda, hann blés á hrakspár og illt gengi. Það var trúbrot í hans huga að gefast upp.

Hann lifnaði allur við þegar Rax, uppeldið hans á Mogganum heimsótti hann á lokadegi baráttunnar. Rax spurði hvort hann væri klár í leiðangur á Grænland, þar sem þeir þekktu óravíddir stórbrotinnar náttúru og mannlífs. Þá var eins og lífið kæmi til baka og gamli krafturinn sýndi sig aftur. En undir stjörnu á næturhimni beið Breki og þeir stigu inn í síðasta dansinn. Arnarklóin sveiflaðist og Brekkan tók öll undir.

Við syngjum saman þennan söng.
því hann er minn og þinn.
Við göngum götuna mót gæfu.
sem er þín og mín.
Og dansinn dunar enn.
Síðasti dansinn senn.
Viðeigum stjörnu á næturhimni. Ástin mín ein.

Við Sigga vottum Dóru og fjölskyldunni hjartans samúð.

Ásmundur Friðriksson

Nýjar fréttir