-7.2 C
Selfoss

Veglegur styrkur til Bókhlöðu í Gestastofunni í Skálholti

Vinsælast

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, kom í Skálholt í gær og færði Verndarsjóði Skálholtsdómkirkju veglegan styrk til innréttinga fyrir Bókhlöðu Skálholts í framtíðar húsnæði hennar. Styrkurinn nemur fimm milljónum króna og hefur þessi viðurkenning orðið til þess að A.P. Möller sjóðurinn í Kaupmannahöfn hefur einnig lagt styrk til þessa menningarlega verkefnisins. Menningarmálaráðuneytið hefur áður lagt fram styrk til Prentsöguseturs Íslands. Hefur það hjálpað kirkjunni að lagfæra húsnæði Gestastofunnar sem hýsa á bæði söfnin í framtíðinni.

Eitt af því sem gefur Bókhlöðu Skálholts sérstöðu er að í því er að finna bækur prentaðar á flestum fornum prentstöðum í sögu landsins. Meðal þeirra staða er Skálholt. Örstutt er yfir í rústir af prenthúsi Þórðar biskups Þorlákssonar er stóð við heimatorfuna á staðnum á 17. öld og örstutt á Fjósakelduna þar sem Oddur þýddi Nýja testamentið árið 1540 á dögum Ögmundar Pálssonar, síðasta kaþólska biskupssins í Skálholti.

Mynd: Herdís Friðriksdóttir.

Í Skálholti eru bundnar miklar vonir við að bæði söfnin muni efla áhuga ungra og eldri á bókmenntaarfi þjóðarinnar og prentlistinni þegar þessi saga hefur verið gerð aðgengilegri. Einnig er stefnt að aðstöðu til rannsókna á safninu. Enn er leitað til félaga, einstaklinga og stofnana með styrki í þetta verkefni sem hefur verið metið jafn mikils virði fyrir menningu okkar og sérstöðu í ljósi sögunnar í Skálholti og nálægðar við raunverulegar minjar og rannsóknir.

Samkomulagið um styrk menningar- og viðskiptaráðuneytis var undirritað við hátíðlega athöfn í framtíðar húsnæði Bókhlöðunnar af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ráðherra, og Árna Gunnarssyni, formanni Verndarsjóðsins, eftir að nokkrir af dýrgripum safnsins höfðu verið skoðaðir á staðnum, þar á meðal fyrsta prentun Landnámu í Skálholti 1688. Meðal viðstaddra voru fulltrúar Prentsögusetursins, stjórnar Skálholts og sóknarnefndar, auk framkvæmdastjóra og vígslubiskups.

„Framlag Íslands til heimsbókmenntanna er umfangsmikið og hefur fylgt þjóðinni um margar aldir. Dæmi þess má sjá hér í Skálholti þar sem mikilvægar bókmenntir eru varðveittar. Það skiptir máli að hlúa að þessum menningararfi okkar og auka aðgengi að honum til að miðla til komandi kynslóða,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Árni Gunnarsson fyrir hönd Verndarsjóðs Skálholtskirkju. Mynd: Stjórnarráðið/MVF

Nýjar fréttir