-0.7 C
Selfoss

„Þörf fyrir bætta aðstöðu á Suðurlandi fyrir menninguna“

Vinsælast

Síðastliðinn miðvikudag fór fram íbúafundur á vegum Sveitarfélagsins Árborgar varðandi framtíð Menningarsalar Suðurlands á Selfossi. Á fundinum fluttu fulltrúar tónlistar og sviðlista mál sitt ásamt því að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tók til máls í lokin.

Að sögn Kjartans Björnssonar, bæjarfulltrúi og formaður menningarnefndar Árborgar, gekk fundurinn vel. „Ég var snortinn yfir mætingunni á einum fallegasta og besta degi ársins. Mörg sjónarmið voru reifuð og fulltrúar menningartengdrar starfsemi á svæðinu fóru yfir mikilvægi þess að bæta aðstöðu fyrir kóra, leikfélög, klassíska tónlist, dans og fleiri,“ sagði Kjartan í samtali við Dagskrána.

Snemma á árinu var tekinn fundur með Lilju Alfreðsdóttur ásamt nýjum eigendum Hótel Selfoss og mátti skynja eftir þann fund að áhugi væri fyrir því að halda áfram með hugmyndir að því að fullklára Menningarsal Suðurlands. „Það liggur fyrir hversu mikil þörf er fyrir bætta aðstöðu á Suðurlandi fyrir menninguna og eftir fundinn með Lilju var það ákveðið að hún myndi koma og hitta heimamenn úr menningargeiranum á fundi sem við stóðum fyrir í vikunni. Það sem kom út úr fundinum að mínu mati er að Lilja vill halda áfram með samtalið og fá fleiri að borðinu og hennar orð í lok fundar um að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær salurinn yrði tekinn í gagnið, blés mér og væntanlega fundarfólki öllu bjartsýni í brjóst,“ bætti Kjartan við.

Kjartan bætir við að nú þyrfti að mynda kraftmikinn hóp fólks til að finna lausnir í samvinnu sveitarfélaga, ríkis, menningartengdra aðila og eigenda Hótel Selfoss til að klára málið á næstu árum. „Erfitt árferði einmitt núna í ljósi verðbólgu og erfiðra lánskjara og stöðu ríkis og sveitarfélaga sem eru öll að draga úr útgjöldum til að minnka verðbólgu setur málin á tímabundinn ís. En fundurinn var góður og okkar leið til þess að halda þessu mikilvæga menningarlega verkefni áfram lifandi,“ segir Kjartan við í lokin.

Nýjar fréttir