3.9 C
Selfoss

Heimili menningarinnar

Vinsælast

Frá því gamla Selfossbíó var rifið árið 1986 (fyrir bráðum 40 árum síðan) hafa Selfyssingar ekki átt heimili fyrir menningu svæðisins. Þetta hefur haft þau áhrif, að tónleikahald, leiksýningar, danssýningar og aðrir listviðburðir hafa þurft að leita uppi ýmsa staði til að koma list sinni á framfæri.

Tónlistarskóli Árnesinga hefur ekki farið varhluta af stöðu mála. Í húsnæði tónlistarskólans á Selfossi er lítill salur sem nýtist fyrir litla haust- og vortónleika, en hljómburður er ekki nema rétt í meðallagi.

Allir viðburðir innan skólans þar sem gert er ráð fyrir fleiri en 60 áheyrendum hafa verið á hrakhólum. Flytjendur á stærstu viðburðum tónlistarskólans eru um 120 – 130 og áheyrendur um 300 talsins, en skólinn hefur ekki aðstöðu sem rúmar slíka viðburði.

Við höfum fengið inni t.d. í anddyri Sunnulækjarskóla, sal Fjölbrautaskóla Suðurlands, gamla frystihúsinu á Stokkseyri, Íþróttahúsi Vallaskóla, íþróttahúsi Fjölbrautaskólans, íþróttahúsinu á Laugarvatni, Selfosskirkju og Hveragerðiskirkju. Aðstaða nemenda á þessum stöðum er misjöfn og mikil fyrirhöfn að stóla upp fyrir viðburði (bæði fyrir áheyrendur og nemendur) og flytja allan búnað á tónleikastað.

Okkur er alls staðar vel tekið, en enginn þessara staða er ætlaður til tónleikahalds og hljómburði víðast hvar áfátt nema í kirkjunum. Þessir staðir eru fyrst og fremst skóli, íþróttahús, hótel og kirkja, ekki tónleikahús. Panta þarf íþróttahús með margra mánaða fyrirvara, grunnskólarnir og fjölbrautaskólinn eru með mjög dempaða hljóðvist og aldrei alveg öruggt hvort kirkjurnar eru lausar vegna jarðarfara eða annarra kirkjulegara athafna. Þá vantar yfirleitt alls staðar flygil á þessa staði og fá píanónemendur því sjaldan tækifæri til að leika á gott hljóðfæri á stærri tónleikum.

Menningarlíf á Suðurlandi er mjög blómlegt, en það er „á götunni“. – Heimili menningarinnar er ekki til.

Vandaður tónleikasalur með góðum hljómburði opnar svo mörg tækifæri og möguleika fyrir svo marga, sem ekki er hægt að hugsa sér við núverandi aðstæður.

Við hugsum til tónleikahalds, óperusýninga og söngleikja á vegum Tónlistarskóla Árnesinga, Tónsmiðju Suðurlands, Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og kóra svæðisins (sem eru fjölmargir). Við hugsum til leiksýninga á vegum Leikfélags Selfoss og nemenda Fjölbrautaskóla Suðurlands (sem reyndar nýttu menningarsalinn ískaldan og hráan til sýninga um árabil) og við hugsum til danssýninga á vegum Dansakademíunnar – og ýmissa fleiri viðburða.

Svo er ekki síður mikilvægt að góð aðstaða til tónleikahalds og sýninga, dregur flytjendur og áheyrendur annars staðar aðinn á svæðið og eykur þannig enn á menningarflóru Suðurlands. Sunnlendingar allir og þeir fjölmörgu gestir sem hingað koma, njóta þannig góðs af. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, kórar og kammerhópar af öllu landinu gætu haldið tónleika. Við gætum tekið á móti leiksýningum og allra handa listsýningum og yrðum um leið svo miklu ríkari að menningu.

– – –

Við höfum stundum velt fyrir okkur hvers vegna svona illa gangi að koma þaki yfir menninguna hjá okkur. Íþróttamannvirki hafa byggst upp jafnt og þétt í gegnum áratugina og aðstaða til íþróttaiðkunar á Selfossi má teljast mjög góð, jafnvel á heimsmælikvarða – sem við fögnum að sjálfsögðu. … – Menningarsalurinn hefur hins vegar látið á sér standa.

Er ástæða þess að íþróttunum gengur betur en listunum að koma yfir sig húsi, að í íþróttir velst keppnisfólk sem er duglegt að láta í sér heyra?

Er fólk í listum svona hlédrægt að það nær ekki eyrum ráðamanna sem halda um pyngjuna? – Setja listamenn bara alla orkuna í að æfa dagskrá og miðla til áheyrenda – og þó aðstaðan sé ekki nógu góð, er það bara látið duga?  …  – Það er ekki gott til lengdar.

– Ráðamenn þurfa líka að passa upp á hljóðu börnin.

– – –

Frá því gamla Selfossbíó var rifið árið 1986, hefur íbúum Sveitarfélagsins Árborgar (sem áður fóstraði fjóra hreppa) fjölgað úr um 5.000 íbúum (1990) í rúmlega 11.000 um síðustu áramót … og í Árnessýslu allri hefur íbúum fjölgað á sama tíma úr um 11.000 íbúum í nálægt 21.000 íbúa.

Við teljum tímabært að samfélagið allt sameinist um að koma upp fyrirmyndar aðstöðu til listflutnings, svo íbúum svæðisins standi til boða að rækta bæði líkama og sál í heimabyggð.

Ef velbúinn menningarsalur, sem rúmar stóra viðburði í 21.000 íbúa samfélagi, lítur dagsins ljós, horfum við fram á bjartari tíð með menningarblóm í haga Sunnlendinga.

Helga Sighvatsdóttir,
s
kólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga

 

Nýjar fréttir