-4.4 C
Selfoss

Góðar bækur eru andlegt munngæti

Sigfinnur Þorleifsson.

Sigfinnur Þorleifsson er Eskfirðingur sem var ungur þegar hann hleypti heimdraganum. Hann er guðfræðingur og stundaði framhaldsnám í Skotlandi og síðar Bandaríkjunum. Sigfinnur starfaði sem sóknarprestur í rúman áratug austur í Hreppum og á Skeiðum. Í ríflega þrjá áratugi var hann sjúkrahúsprestur við Borgarspítalann, Sjúkrahús Reykjavíkur og síðast Landspítala. Á sama tíma var hann lektor í sálgæslufræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Nú er hann skógarbóndi austur í Skeiða-og Gnúpverjahreppi ásamt eiginkonu sinni Bjarnheiði K. Guðmundsdóttur örverufræðingi. Þau eiga þrjú börn og níu barnabörn. 

Hvað bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa glæpasöguna Irene eftir franska rithöfundinn Pierre Lemaitre í þýðingu Friðriks Rafnssonar. Áður hafði ég lesið bókina Alex eftir sama höfund. Spennusögur hvers konar eru mér afþreying svo sem sögur eftir Anne Cleeves. Þýðandinn Friðrik Rafnsson er góð trygging fyrir góðri sögu. Irene er hrottafengin frásögn en innsæi dvergvaxna lögregluforingjans Camille heillar. Pierre Lemaitre nýtur mikilla vinsælda í heimalandinu og það gerir einnig Ragnar Jónasson. Þeir eru gjörólíkir höfundar en báðir góðir. 

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég hef alltaf lesið mikið og ekki síst nú á síðustu árum. Og er hraðlæs. 

Fékkstu lestraruppeldi í æsku?

Eins og mörg börn á Eskifirði kom ég læs í skóla. Lærði að lesa hjá fullorðinni konu í þorpinu. Hún var Færeyingur, en það vissi ég ekki fyrr en síðar. Við byrjuðum á Gagn og gaman en síðan undum við okkur beint í Grimms ævintýri, enda var ég snemma hrifinn af spennuþrungnum sögum. Tók einnig fljótt til við að lesa Gráskinnu, draugasögusafn Sigurðar Nordals og Þórbergs Þórðarsonar, en þá varð líka einhver að vera heima til þess að ég þorði. Gráskinna bæði laðaði mig að sér og hræddi. Magnað ritsafn. 

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Rétt eins og góðar glæpasögur eru góð afþreying þá er ég hrifinn af góðum skáldsögum. Pedro Gunnlaugur Garcia heillaði mig með skáldsögunni Lungu. Fleiri höfundar sem róa á mið töfraraunsæis get ég nefnt, en læt þó nægja að nefna margar listilega vel gerðar sögur sem bókaútgáfan Angústúra gefur út. Angústúra opnar sagnaheim frá fjarlægum löndum og er vert að mæla með þeim bókmenntum. Þar er fyrrnefndu töfraraunsæi ósjaldan beitt eins og til dæmis í sögunni Uppljómun í eðal plómutrénu eftir íranska skáldið Shokoofeh Azar. 

Auk skáldsögunnar eru ævisögur og þjóðlegur fróðleikur ofarlega á leslistanum. Ævisaga Árna Þórarinssonar er í sérstöku uppáhaldi. Meistari Þórbergur fangar efnið og verður eitt með sögumanninum. Þetta er ein af þeim sögum sem þolir upprifjun og endurlestur. Sjálfsævisaga þjóðskáldsins Matthíasar, Sögukaflar af sjálfum mér, er mér kær líkt og saga Jón Steingrímssonar eldklerks og Játningar Ágústínusar kirkjuföðurs. Allar þessar bækur eiga það sammerkt að segja hispurslaust frá höfundinum. Það er ekki gert honum til upphafningar heldur frekar er um að ræða sagnaritun sem læra má af og skilja þannig betur flókna innviði manneskjunnar og hvers vegna framrás lífssögunnar er eins og hún er. 

Áttu þér uppáhalds verk eða höfunda?

Lestur ljóðabóka veitir mér mikla lífsfyllingu, bæði hefðbundin ljóð og óhefðbundin, oft með trúarlegu ívafi. Ég nefni Ísak Harðarson, sem er nýlátinn, Snorra Hjartarson, en hann yrkir myndrænt líkt og málari sem mundar pensilinn af listfengi, enda hvoru tveggja ljóðskáld og listmálari. Mörg af ljóðum Snorra byggja á biblíulegum minnum og því ástæða til að lesa Ritninguna þó ekki væri til annars en að njóta betur ljóðmálsins. Ég nefni líka Hannes Pétursson sem hefur fylgt mér lengi.

Hefur lestur bókar rænt þig svefni?

Góðar bætur eru andlegt munngæti og því gott að njóta en gleypa ekki í sig. Rekist ég á verulega góða bók þá tími ég varla að ljúka henni og geymi hana frekar til næsta dags en að láta hana ræna mig svefni. 

En að lokum Sigfinnur, hvernig verk myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Tvisvar á mínum fyrri starfsárum var ég frá vinnu um lengri tíma. Í fyrra skiptið vegna slysfara og í seinna skiptið var ég í rannsóknarleyfi. Í bæði þessi skipti skrifaði ég bækur, sem voru útgefnar. Þær voru um hugðarefni mín, sálgæsluna. Sú fyrri heitir Í nærveru, sú seinni ber heitið Samtal við samtímann, með undirtititlinum Fáein drýli í víngarði Drottins. Fyrri bókina skrifaði ég vegna þess að ég hafði ekkert betra að gera, þá seinni skrifaði ég til að fá tilbreytingu og hvíld frá rannsóknarverkefninu, sem ég var að vinna að. Lesandi sagði um þessar bækur að þær fjölluðu um hagnýta guðfræði. Mér þótti vænt um það. Góðkunningi minn austur á Flúðum, Geiri kaupmaður á Grund, blessuð sé minning hans, sagði gjarnan við mig, þegar ég hugðist festa kaup á einhverju í búðinni hans: „Væri ég þú myndi ég ekki kaupa þetta.” Mér er líkt farið þegar ég hugsa um þessar bækur, sem ég hef þó skrifað, og læt hér staðar numið.

Tillögur að áhugaverðum Lestrarhestum berist á netfangið jonozur@gmail.com.

Nýjar fréttir