-11.4 C
Selfoss

Sumarkveðja frá Krabbameinsfélagi Árnessýslu

Vinsælast

Veturinn hefur verið viðburðaríkur í starfsemi Krabbameinsfélags Árnessýslu. Reglulegir opnunartímar þrjá daga vikunnar hafa haldið sínum sessi og eigum við það okkar öflugu sjálfboðaliðum að þakka sem staðið hafa hverja vaktina á fætur annarri og tekið vel á móti félagsmönnum með heitu kaffi og notalegu spjalli. Töluverð aukning gesta hefur verið í hverri viku og fögnum við því að sífellt fleiri nýta sér þjónustu félagsins. 

Fjölbreytt fræðsla og viðburðir hafa verið í boði í allan vetur og hefur verið einstaklega gaman að sjá hversu margir hafa nýtt sér þá fríu þjónustu.

Stærri viðburðir líkt og Styrkleikarnir sem haldnir voru í lok apríl síðastliðnum sýna okkur enn og aftur hversu mögnuðu samfélagi við tilheyrum. Þar mátti bæði sjá og finna einstakan samhug, kraft og gleði í augum og hugum allra sem tóku þátt. Það er mikil vinna að standa fyrir slíkum viðburði og sendum við öllum þeim sem komu að undirbúningi og framvæmd Styrkleikanna einstakar þakkir. Allir sem komu að vinnunni, sem og allir listamenn sem komu fram voru tilbúnir að gefa vinnu sína í þágu málstaðarins og fyrir það erum við óendanlega þakklát.

Auk fastra þjónustuþátta líkt og stuðningsviðtala, endurhæfingar og jóga, hefur ýmis nýbreytni verið til staðar í vetur. Sjálfboðaliðar félagsins hafa heimsótt krabbameinsgreinda á HSU og kynnt fyrir þeim starfsemi félagsins og félagsmönnum bauðst að þiggja Reikiheilun svo fátt eitt sé nefnt.

Nú siglum við inn í sumarfrí og njótum þess að endurhlaða orkuna með slökun, ferðalögum og samveru með fjölskyldum og vinum. Sjálfboðaliðarnir okkar eru undirstaða þess að mögulegt er að halda úti þjónustu yfir allan veturinn, styrktaraðilar sem leggja starfsemi okkar lið með fjármagni og gjöfum eru forsenda þess að starfsemin er möguleg og að hægt sé að halda úti fallegri félagsaðstöðu þar sem gott er að koma í og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði.

Stjórn Krabbameinsfélags Árnessýslu þakkar samveruna í vetur og hlakkar til að hefja starfið að nýju í ágúst þegar við opnum húsið okkar eftir sumarfrí.
Hafið það sem allra best.

Fyrir hönd stjórnar,
Svanhildur Ólafsdóttir
formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu. 

Nýjar fréttir