-0.7 C
Selfoss

Framkvæmdastjórn Hamars lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu íþróttamála í Hveragerði

Vinsælast

Sextán mánuðir eru liðnir frá því að Hamarshöllin eyðilagðist í óveðri í febrúar árið 2022.

Á þessum 16 mánuðum hefur ýmislegt gerst en þó ekkert.

Fyrrverandi meirihluti ákvað að endurreisa loftborna höll. Nýr meirihluti ákvað að svo yrði ekki. Hér í næstu línum ætlum við að fara yfir málið í tímaröð frá því að sú ákvörðun var tekin.

18.júlí 2022
Á bæjarstjórnarfundi var ákveðið að Hamarshöllin yrði endurbyggð sem einangrað hús með burðarvirki úr stálgrind eða öðrum föstum efnum. Á sama fundi var ákveðið að setja á laggirnar hönnunarhóp en hlutverk hans var að koma með tillögur að hönnun hússins og fyrirkomulagi þess. Í hópnum sátu fulltrúar stjórnamálaflokkanna, byggingarfulltrúi, þáverandi íþrótta-menningar-og frístundafulltrúi og núverandi formaður Hamars.

22.ágúst 2022
Hönnunarhópurinn skilar af sér.

6.október 2022
Meirihluti bæjarstjórnar á samráðsfund með ráðgjöfum um enduruppbyggingu Hamarshallar.

8. október 2022
Vinnufundur meirihluta bæjarstjórnar auk byggingarfulltrúa, framkvæmdastjórnar Hamars og verkfræðingum Mannvits og Alark.

Á fundinum voru ýmsar hugmyndir kynntar fyrir stjórn Hamars. Niðurstaða fundarins var sú að ný bygging  myndi bjóða öllum deildum Hamars upp á sambærilega æfingaaðstöðu og áður var, stjórn Hamars gæti ekki lagt blessun sína við neitt minna.

8.desember 2022
Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum að setja 1. áfanga nýrrar Hamarshallar í alútboð.

6.janúar 2023
Áramótakveðja bæjarstjóra birt á vef Hveragerðisbæjar þar sem segir:

,,Hamarshöllin hefur spilað stórt hlutverk í eflingu íþróttastarfs í Hveragerði og verið einn af hornsteinum bæjarins. Það var því mikið áfall fyrir bæjarfélagið að missa aðstöðuna fyrir um ári síðan en nú horfir til betri vegar, þar sem hannað hefur verið glæsilegt framtíðarmannvirki sem mun rísa á grunni þess fyrri. Horft er til framtíðar á uppbyggingu Hamarshallarinnar þar sem fjárfest er til vaxtar og aðstaðan geti stækkað og eflst í takt við aukna íbúðabyggð. Er nú verið að leggja lokahönd á útboðsgögn sem ættu að vera tilbúin á næstu dögum”.

16.janúar 2023
Auglýsing eftir bjóðendum í nýja Hamarshöll sett í loftið á útboðsvef.

10.mars 2023
Matsnefnd skipuð til að fara yfir tilboð í nýja Hamarshöll.

23.mars 2023
Tilboð opnuð. Fimm tilboð bárust, öll yfir kostnaðaráætlun.

3.apríl 2023
Bæjarstjórn ákveður að hafna öllum tilboðum sem bárust í alútboðinu og að efna til samkeppnisútboðs eða samkeppnisviðræðna.

4.apríl 2023
Framkvæmdastjórn Hamars óskar eftir að fá fund með bæjarstjórn til að fá upplýsingar um stöðu mála.

11.apríl
Fundur með meirihluta bæjarstjórnar.

Framkvæmdastjórn tjáð að öllum tilboðum sem bárust í alútboðinu verði hafnað.

Farið verði í samkeppnisviðræður við þá aðila sem áttu gilt boð. Var þessum viðræðum ætlað að finna leiðir til að koma húsinu upp fyrir minni kostnað. Var m.a. nefnt í því samhengi að bíða með kyndingu, lýsingu og  loftræstingu.

Matsnefndinni (þeirri sem stofnuð var 10.mars 2023)  var falið að fara í að undirbúa þessar viðræður.

4.júní 2023
Framkvæmdastjórn óskar eftir fundi, formlegum eða óformlegum til að fá upplýsingar um stöðu mála.

14.júní 2023
Framkvæmdastjórn bíður enn eftir upplýsingum um stöðu mála.

Bæjarstjórn hefur ekkert gefið út um stöðu mála í fréttum á heimasíðu sinni síðan 23.mars sl. og stjórn Hamars engar upplýsingar fengið síðan á fundinum þann 11.apríl þrátt fyrir fögur fyrirheit um að halda stjórninni upplýstri um stöðuna hverju sinn.

Það er auðvitað öllum ljóst að ekkert hús verður risið hér í haust. Við erum því að fara inn í annan vetur þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar er verulega skert frá því sem áður var.

Starf menningar-, íþrótta- og frístundafulltrúa lagt niður

Á sama tíma og áskoranir í íþróttastarfi hafa sjaldan eða aldrei verið meira hafa verið gerðar skipulagsbreytingar og starf menningar-íþrótta- og frístundarfulltrúa verið lagt niður. Stjórn Hamars lýsir yfir verulegum áhyggjur vegna þessa breytinga. Það er alveg ljóst að þau verkefni sem menningar-íþrótta- og frístundafulltrúi sinnti hafa ekki minnkað eða horfið heldur þvert á móti. Á fundi stjórnar með meirihluta bæjarstjórnar þann 11.apríl sl. var stjórninni tjáð að verkefni þessi væru nú á borði bæjarstjóra, þangað til nýtt skipurit tæki við.

Nú hefur nýtt skipurit verið kynnt og segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundi þann 7.júní sl. að

 ,, Frá því að úttektin og vinnan við nýtt skipurit hófst hafa orðið breytingar í starfsmannahópnum og við það sköpuðust ný tækifæri sem nauðsynlegt var að bregðast við. Menningar- íþrótta- og frístundafulltrúi hætti störfum og staða atvinnu- menningar- og markaðsfulltrúa kemur í hans stað. “

Í takt við þetta hefur íþrótta-menningar-og frístundanefnd bæjarins verið lögð niður og ný atvinnu-markaðs-og menningarmálanefnd verið skipuð.

Íþróttamálin, sem hvergi er á minnst í nýju skipuriti bæjarins, munu því hér eftir vera annars vegar á borði velferðar-og fræðslunefndar og hins vegar á borði bæjarstjóra og bæjarráðs.

Í því samhengi er vert að skoða annars vegar hvert hlutverk og verkefni íþrótta-menningar-og frístundanefndar var og hins vegar hver verkefni nýarrar velferðar og fræðslunefndar verða.

Í erindisbréfi menningar-íþrótta og frístundanefndar segir:

Hlutverk menningar, -íþrótta og frístundanefndar er:

  • að gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnumótun í menningar,-íþrótta- og frístundamálum og hafa eftirlit með að stefnu bæjaryfirvalda á hverjum tíma sé framfylgt.
  • að vinna að eflingu menningar, íþrótta, félagslífs, heilbrigðarar tómstundaiðju og almennrar heilsueflingar í Hveragerði og stuðla að samvinnu við þá aðila sem um slík mál fjalla.
  • að hafa eftirlit með stofnunum sem vinna að menningar-og frístundamálum, og fylgjast með að þær vinni að settum markmiðum, í samræmi við lög og veiti góða þjónustu.
  • að leggja mat á þá þjónustu sem veitt er á vegum sveitarfélagsins í menningar-og frístundamálum og að fjalla um þau erindi sem berast vegna þjónustunnar.
  • að gera tillögur að fjárhagsáætlun til bæjarstjornar, um þá liði hennar sem falla undir verksvið nefndarinnar, í samvinnu við viðkomandi forstöðumenn.
  • að fara yfir tilllögur forstöðumanna að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar og gæta þess í ákvörðunum sínum að halda áætlarnir.
  • að vera bæjarstjórn að öðru leyti til ráðuneytis í menningar-íþrótta og frístundamálum.

Verkefni nefndarinnar eru:

  • að hafa umsjón með framgangi hvers kyns menningar-íþrótta-og frístundastarfsemi og hafa um það samstarf við félög, stofnanir og hópa sem starfa á því sviði bæði innanbæjar, á Suðurlandi og á landsvísu.
  • að fara með stjórn bókasafns í umboði bæjarstjórnar. Starfað skal skv. lögum nr. 36/1997 um almenningarbókasöfn.
  • að gera tillögur og veita umsagnir til bæjarstjórnar um styrkveitingar úr bæjrarsjóði til menningar-og íþróttamála á vegum einstaklinga, sjálfstæðra félaga, stofanana og hópa.
  • að beita sér fyrir samvinnu menningarstofnana í Hveragerði og við önnur byggðarlög eftir því sem nefndin ákveður hvejru sinni.
  • að hafa tiltækar sem gleggstar upplýsingar um menningar,-íþrótta-og frístundamál í Hveragerði
  • að hafa yfirumsjón með viðburðum ss. Sumardeginum fyrsta, 17.júní, Blómstrandi dögum og öðrum viðburðum.
  • að stuðla að aukinni íþróttaiðkun barna-og ungmenna og hvetja til þess að boðið sé upp á íþróttatengda viðburði í bæjarfélaginu.
  • að annast skipulagningu og starfsemi félagsmiðstöðvar.
  • að hafa yfirumsjón með leikjanámskeiði yngstu barna í Hveragerði og gæsluvelli.
  • að hafa yfirumsjón með starfsemi Varmahlíðahúss, úthlutun þess og starfsemi.
  • að móta stefnu og skipuleggja forvarnarstarf innan sveitarféalgsins.
  • að hafa umsjón með útgefnu kynningarefni vegna málaflokksins.
  • að kalla eftir ársreikningum félagasamtaka, sem njóta styrkja úr bæjarsjóði.
  • að vinna að öðrum þeim verkefnum sem bæjarstjórn felur nefndinni á hverjum tíma.

Verkefni nýrrar velferðar-og fræðslunefndar verð eftirfarandi:

Velferðar- og fræðslunefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin annast þau verkefni sem bæjarstjórn felur henni á sviði fræðslu-, félagsþjónustu-, íþrótta-, frístunda-, og forvarnamála á grundvelli laga um leikskóla nr. 90/2008, laga um grunnskóla nr. 91/2008, laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985, laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, laga um málefni aldraðra nr. 124/1999, íþróttalaga nr. 64/1998 og æskulýðslaga nr. 70/2007. Nefndin fer með stjórn sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla skv. reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019. Nefndin fer auk þess með verkefni félagsmálanefndar skv. 5. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og verkefni yfirstjórnar barnaverndarþjónustu skv. 12. gr., sbr. 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Nefndin starfar skv. erindisbréfi sem henni er sett.

Til gamans má sjá að verkefni nýstofnaðar atvinnu-markaðs og menningarmála skv. nýjum samþykktum um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar eru eftirfarandi:

Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin annast þau verkefni sem bæjarstjórn felur henni á sviði atvinnu-, ferðaþjónustu-, markaðs- og kynningarmála sveitarfélagsins á grundvelli bókasafnslaga nr. 150/2012, Nefndin fer einnig með verkefni bókasafnsstjórnar skv. 8. gr. bókasafnalaga nr. 150/2012. Nefndin starfar skv. erindisbréfi sem henni er sett. 

Það er ekki hægt annað en að draga þá ályktun að verið sé að smætta vægi íþróttamála hjá bænum með því að setja verkefni sem áður voru á hendi sér nefndar undir nefnd sem hefur gríðarlega stór verkefni undir höndum. Vissulega kveða farsældarlögin á um breytingar vegna samþættingar en eftirstanda ýmis praktísk verkefni sem óljóst er hver muni að sinna.

Það er að mati stjórnar Hamars alvarlegt að málefni íþrótta í bænum fái ekki meira vægi en þetta. Búið er að deila verkefnum sem áður voru á hendi íþrótta-menningar-og frístundafulltrúa á fjölmarga aðila sem torvelda mjög boðleiðir fyrir íþróttahreyfinguna í bænum. Aðal-og framkvæmdastjórn Hamars er sjálfboðaliðastjórn sem áður gat með góðu móti haft öll sín samskipti varðandi starfið við einn starfsmann bæjarins sem vann að málefnum og kom þeim í réttan farveg hverju sinni, hvort sem það var sem starfsmaður í stjórn menninga-íþrótta-og frístundanefnd eða sem samstarfsmaður bæjarstjóra.

Í dag þarf stjórn Hamars, í sjálfboðavinnu, að taka við erindum frá þjálfurum eða stjórnum deildanna og vera milliliður og koma þeim málum áleiðis. Þarf stjórnin þá að vita hver fer með málefnið því ef málefnið varðar akstur þá er það fræðsluteymið, ef það varðar tíma í íþróttahúsinu þá er það annað hvort forstöðumaður þar eða bæjarstjóri. Ef það varðar þjónustusamning þá er það atvinnu-markaðs og menningarmálafulltrúi sem er með boltann.

Stjórn Hamars harmar þá stöðu sem er komin upp og hvetur bæjarstjórn til að upplýsa bæði stjórnina sem og íbúa alla um hver staðan varðandi uppbyggingu Hamarshallar raunverulega er því þó aðstöðuleysið sé slæmt þá gerir upplýsingaleysið um stöðu mála stöðuna enn verri.

Þá hvetur stjórnin bæjarstjórn til að endurskoða þá pólitísku ákvörðun að leggja niður starf menningar-íþrótta-og frístundafulltrúa (sem og nefnd menningar-íþrótta-og frístundamála) og ráða í staðinn atvinnu-menningar-og markaðsfulltrúa.

Framkvæmdastjórn Hamars

Nýjar fréttir