Afsal er undirritað við lokagreiðslu. Afsal er lokauppgjör fasteignakaupa sem staðfestir að kaupandinn eigi fasteignina að fullu eftir undirritun afsals.
Kaupandi eignast í raun eignina sem hann festi kaup á við kaupsamning en telst samt sem áður ekki eigandi að fullu fyrr en að afsal hefur verið undirritað og því þinglýst. Þegar kaupandi fasteignar hefur greitt seljanda alla umsamda upphæð í kaupsamningi fær hann afsal fyrir eigninni. Yfirleitt er afsal haldið um 45-60 dögum eftir afhendingu nema um annað hafi verið samið um og kemur það þá fram í kaupsamningi.
Ástæða þess að afsal er haldið nokkru síðar eftir afhendingu, er til að tryggja það að t.d. fasteignagjöld og húsfélagsgjöld séu komin á réttan aðila. Samhliða afsali er lögskilauppgjör undirritað, þar sem þessi gjöld eru gerð upp á milli kaupanda og seljanda. Skipting gjalda miðast almennt við afhendingu. Einnig er beðið með afsalsgreiðslu í þennan tíma svo kaupandi geti áttað sig á eigninni ef einhverjar athugasemdir kunna að vera við ástand hennar.
Þú þarft að vera afsalshafi til að geta selt eignina aftur og líka til að geta tekið lán á eignina þína eða endurfjármagnað lánin þín.