3.9 C
Selfoss

Betri heilsa – aukin lífsgæði

Vinsælast

Öldrunarendurhæfing á Heilsustofnun NLFÍ

Guðrún Ásta Garðarsdóttir sjúkraþjálfari og Margrét Jóhannsdóttir íþróttafræðingur. Mynd: Aðsend

Þekkt er að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og fer öldruðum fjölgandi og væntanlega mun þessi þróun halda áfram næstu árin og áratugi.

Þótt margir eldist á heilbrigðan hátt þá komumst við ekki hjá aldurstengdum breytingum sem hafa mismikil áhrif á heilsuna okkar. Einnig fjölgar þeim sem eldast ekki eins og best verður á kosið. Aldurstengdar breytingar og langvinnir sjúkdómar setja strik í reikninginn hjá fjölmörgum og geta gert einstaklingum lífið leitt.  Rannsóknir hafa sýnt að regluleg hreyfing ásamt heilbrigðu líferni  lengir lífið. Það er þó ekki endilega það sem maður vill einblína á heldur frekar að halda heilsu og virkni lengur.  Áhrif þjálfunar eru afar víðtæk, vel rannsökuð og það er vísindalega staðfest að líkamsþjálfun getur seinkað eða dregið úr áhrifum aldurstengdra breytinga.

Því miður er sú hugmynd útbreidd að aldraðir séu veikburða og eigi að hafa hægt um sig.  Einnig er algengt að aldraða skorti trú á að þeir geti stundað líkamsrækt, telja að það sé of seint, það taki því ekki.

Staðreyndin er sú að ef það er einhvern tímann mikilvægt að hreyfa sig þá er það á efri árum. Hreyfingarleysi dregur úr líkamlegri færni, vöðvastyrkur  og vöðvamassi minnkar, jafnvægið verður verra og fólk verður óöruggara til gangs, sem dregur oft enn meira úr hreyfingunni.  Því er regluleg þjálfun mikilvæg til að draga úr fallhættu.

Það er aldrei of seint að byrja, aldraðir eru ekki síður móttækilegir fyrir þjálfun.

Á Heilsustofnun fer fram umfangsmikil endurhæfing aldraðra, þangað koma um 500  einstaklingar 70 ára og eldri á hverju ári. Til að komast að í læknisfræðilega endurhæfingu þarf beiðni frá lækni og einstaklingurinn þarf að vera sjálfbjarga með athafnir daglegs lífs.

70 ára og eldri er breiður aldurshópur en þessir einstaklingar eru á sama aldursskeiði og eiga það iðulega sameiginlegt að hætta að vinna, breyta um húsnæði, mögulega veikindi maka eða makamissir. Margir hafa upplifað mörg áföll og glíma oft við margþætta sjúkdóma svo dæmi séu nefnd.

Heilsustofnun hefur þá sérstöðu að einstaklingurinn er hér í fjórar vikur, allan sólarhringinn og fær hvíld frá daglegu amstri. Viðkomandi hittir oft fólk í sömu stöðu og allir eru að vinna að sama markmiði, að bæta heilsuna.

Hér er starfandi þverfaglegt öldrunarteymi sem heldur utan um þá einstaklinga sem eru á öldrunarlínu. Í teyminu eru sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingur, sjúkranuddari, sjúkraliðar, læknir og hjúkrunarfræðingur. Í upphafi dvalar er viðtal við hjúkrunarfræðing og lækni. Í framhaldi er sett upp stundaskrá fyrir dvalargestinn þar sem tekið er mið af þörfum og getu hvers og eins.

Meðferðin byggir á faglegu mati, en ávallt hafðar til hliðsjónar óskir dvalargests um meðferðina og áhersla lögð á heildræna nálgun sem er svo mikilvæg. Stundaskráin samanstendur af fjölbreyttum hóptímum, t.a.m. leikfimi, vatnsleikfimi, tækjasalsþjálfun, jafnvægisæfingum, grindarbotnsæfingum, göngu, núvitund og minnisþjálfun. Ýmis konar fræðsla er í boði, svo sem svefnfræðsla, fræðsla í tengslum við byltuvarnir, stoðkerfið, þunglyndi og kvíða svo fátt eitt sé nefnt.

Einnig eru einstaklingsmeðferðir eftir þörfum, eins og sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, samtalsmeðferðir, hita-/kuldameðferðir og viðtal hjá næringarfræðingi. Það er ekki síður mikilvægt að huga að réttu mataræði þegar við eldumst, fá rétt magn af næringarefnum og huga að meltingunni.

Stundaskráin getur breyst þegar líða tekur á dvölina og eru slíkar ákvarðanir teknar í samráði við dvalargest.

Í upphafi dvalar eru framkvæmd líkamsfærnipróf, gert mat á byltuhættu og metin þörf fyrir sértæka meðferð. Einnig eru líkamsfærniprófin framkvæmd í lok dvalar en prófin eru einskonar stöðumat og árangursmæling.  Prófin eru líka hugsuð sem hvati fyrir einstaklinginn að bæta sig milli mælinga.

Árangurinn er ótvíræður eins og sést á niðurstöðum mælinga. Sem dæmi má nefna að í 30 sekúndna standa upp og setjast prófi var að meðaltali 17-23%  bæting, mest í elsta hópnum 90-94 ára. Í 2ja mínútna gönguprófi var að meðaltali 10-12% bæting og í 30 sekúndna olnbogabeygju með handlóð var 12-27%  bæting að meðaltali, mest hjá 70-74 ára.

Ekki má gleyma félagslega þættinum, því utan hefðbundinnar dagskrár þá hittist fólk, spjallar saman, spilar og þess háttar. Undirritaðar hafa  séð greinilegar afleiðingar þess hve fólk var einangrað, komst ekki í þjálfun, fór ekki út og var hálfinnilokað í lengri tíma vegna covidástandsins. Fólk hefur talað mikið um áhrif þess á andlega og líkamlega heilsu. Oft hefur þetta leitt af sér kraftleysi og skerta færni í tengslum við athafnir daglegs lífs, t.d. að geta staðið upp frá stól án hjálpar og gengið án stuðnings.

Alltaf er hætta á að fólk fari í sama farið þegar heim er komið, við leggjum mikið upp úr því á meðan á dvölinni stendur og fyrir útskrift að aðstoða einstaklinginn við að setja sér raunhæf markmið til að viðhalda þeirri færni sem viðkomandi hefur náð hér.  Áhersla er lögð á að fólk fái verkfæri með heim, t.d. æfingar, ráðleggingar og fræðslu varðandi bjargráð. Einnig aðstoðum við einstaklinginn með að finna rétta þjálfun í heimabyggð eftir þörfum og áhuga hvers og eins.

Tilgangurinn með endurhæfingunni er að viðkomandi haldi heilsu, geti verið sjálfbjarga og verið heima sem lengst. Við komumst ekki hjá aldurstengdum breytingum, við getum hægt á þeim, viðhaldið því sem við höfum, bætt heilsu og lífsgæði.

Það eru forréttindi að eldast, en öll viljum við fyrst og fremst hafa góða heilsu og njóta góðra lífsgæða, sama á hvaða aldri við erum.

Fyrir hönd öldrunarteymis á Heilsustofnun NLFÍ, Hveragerði,
Guðrún Ásta Garðarsdóttir sjúkraþjálfari og
Margrét Jóhannsdóttir íþróttafræðingur

Nýjar fréttir