Ég þakka honum Heiðari félaga mínum kærlega fyrir skemmtilega áskorun.
Þrátt fyrir að vera einn virtasti Air Fryer kokkur landsins ætla ég að breyta til og deila uppskriftinni að mínum sívinsæla og uppáhalds taco rétti. Þetta er mjög fljótlegt og einfalt ásamt því að vera við hæfi sama hvaða dagur er.
Spicy Rækju tacos
Lime sósa
½ dl ólífuolía
1 dl vorlaukur
1 dl kóríander
2 hvítlauksgeirar
½ tsk. salt
Safinn úr 2 lime
1 dl sýrður rjómi
½ dl vatn ef þynna þarf sósuna
Sameinið ólífuolíuna, vorlaukinn, kóríander, hvítlaukinn, saltið og sýrða rjómann. Kreistið síðan safan úr 2 lime með. Blandið þessu saman með matvinnsluvél eða blandara. Ef ykkur þykir sósan of þykk skulið þið bæta vatni við.
Kryddblanda
2 tsk. chili krydd
2 tsk. kúmen
1 tsk. sjávarsalt
½ tsk. hvítlaukskrydd
¼ tsk. cayenne pipar
Blandið hráefnunum í kryddblönduna í skál og hrærið vel saman.
Rækju taco
½ kg risarækjur
8 tortillur litlar
6 dl hvítkál saxað niður
2 avocado
Fetaostur
Lime sneiðar bornar fram með matnum
Setjið saxað hvítkál í skál. Bætið við það um það bil helminginn af lime sósunni og hrærið saman með skeið eða svipuðum hlut. Hinn helminginn af sósunni notum við ofan á tacosið á eftir.
Þerrið rækjurnar og setjið síðan í skál og blandið kryddblöndunni saman við rækjurnar þangað til þær eru orðnar kryddhúðaðar.
Hitið olíu á stórri pönnu á meðalháum hita. Bætið rækjunum á heita pönnuna og steikið í 5-8 mínútur og snúið þeim öðru hvoru þar til rækjurnar eru eldaðar í gegn.
Raðið síðan í tortillurnar. Þægilegast er að setja stappað avocado fyrst, hvítkálið og rækjurnar svo. Ofan á rækjurnar kemur svo fetaostur, lime og meiri sósa eftir smekk hvers og eins.
Berið endilega fram með nachos og ostasósu eða guacamole.
Ég skora á Árna Magnússon eða matreiðslu-Megg eins og hann er oft kallaður. Árni er mjög lunkinn í matargerð og finnst fátt skemmtilegra en að nostra við að tína allar kryddjurtir sjálfur sem hann notar, svo hann fer létt með að standast þessa áskorun og galdra fram enn eitt meistaraverkið.