Þann 1. júní sl. opnaði Ingunn V. Sigmarsdóttir myndlistarsýningu á bókasafninu í Hveramörk sem stendur út júnímánuð. Það sem er einkennandi fyrir sýninguna er að ljóð er við hverja mynd.
Ingunn er fædd og uppalin á Borgarfirði eystra. Hún hefur unnið ýmis störf víða um land en er nú þjóðfræðingur og grunnskólakennari sem býr og starfar á Akureyri.
Frá árinu 2014 hefur Ingunn lært olíumálun hjá Lindu B. Óladóttur, myndlistarkonu á Akureyri. Viðfangsefni finnur hún oftast í náttúru, gróðri og landslagi en lífríkið í allri sinni dýrð er henni stöðug uppspretta margs konar sköpunar. Ekki síst hefur náttúrufegurð æskustöðvanna komið þar við sögu. Ingunn hefur gefið út tvær ljóðabækur, eina skáldsögu, auk fleiri verka og fléttar nú saman ljóð og olíumálverk í fyrsta sinn. Þetta er önnur málverkasýning hennar og ber heitið Lífríkjandi.