-0.7 C
Selfoss

Tralli trúður og nýr trúðaís hjá Groovís um helgina

Ísbúðin Groovís opnaði í miðbæ Selfoss fyrir rúmum mánuði síðan og hafa móttökurnar verið virkilega góðar. Sunnudaginn 4. júní nk., ætla þau að fara af stað með það sem þau fullyrða að verði flottasti trúðaís landsins og af því tilefni ætlar trúðurinn Tralli að mæta á svæðið, fíflast í krökkunum og leika listir sínar í blöðrudýragerð.

Groovís er svokölluð desert-búð. Þar er hægt að fá kleinuhringi, ís, candyfloss, og skemmtilegar blöndur af öllu framangreindu. Nánast öll afgreiðslan hjá Groovís fer fram í gegnum sjálfsafgreiðslukassa eða QR kóða. Markmið þeirra er að drepa hvimleiðar raðir sem eiga það til að myndast í ísbúðum með tilheyrandi bið og vandræðum fyrir fjölskyldufólk.

„Í stað þess að koma inn í ísbúð og lenda í röð þar sem þú ert fastur í 15+ min, þá geta gestir Groovís skannað QR kóða og hoppað framfyrir 7 manna fjölskylduna sem er að velja ofan í 5 bragðarefi, sent pöntunina beint inn í eldhúsið og farið út í sólina (eða rigninguna) eða sinnt öðru á meðan þeir fylgjast með því hvar þeir eru í röðinni á skjánum okkar,“ segir Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Groovís.

Þá segir Árni að með þessu móti séu þau mun fljótari að afgreiða pantanir. „Við erum ekki bundin við að afgreiða einn einstakling eða hóp í einu, heldur virkar þetta meira eins og í atvinnu eldhúsi þar sem sjálfsafgreiðslukassarnir og QR kóðinn virka sem þjónar sem taka pantanir á meðan þau sem matreiða ísinn geta unnið í mörgum pöntunum í einu, unnið saman í einni stórri pöntun og að öllu leyti skipulagt keyrsluna betur.“

Fleiri myndbönd