-0.7 C
Selfoss

Sriracha Karrý-Kjúklingur

Heiðar Pétur Halldórsson er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég vil þakka Ingvari fyrir tilnefninguna og þessa góðu áskorun. Við deilum einmitt áhuga á góðum kjúklingaréttum og fékk ég þá þessa ljómandi hugmynd að stinga upp á mínum kjúklingarétti sem er þó frekar frábrugðinn hans. En ekki meira um það, vindum okkur í þetta!

Þessi réttur sem ég býð upp á er einfaldur í undirbúning og mjög góður. Ég kýs að kalla hann Sriracha Karrý-Kjúkling einfaldlega því að sriracha og karrýið er undirstaðan og gefur réttinum þetta gómsæta bragð.

Hráefni:

3 úrbeinuð kjúklingalæri
1 poki hrísgrjón
1 ferskur chilli (smátt skorinn)
3-4 sveppir
1 sæt paprika
½ rauðlaukur (smátt skorinn)
1 vorlaukur (smátt skorinn)
2 lúkur af brokkoli (skorið í bita)
2 msk smjör (má vera smjörvi/létt og laggott)
1-2 mozarella kúlur
5 kirsuberjatómatar (skorið í báta)
2 msk karrý
1 msk túrmerik
1 msk roasted garlic and pepper kryddið
2 msk olía
Sriracha (dass af þinni löngun)
Létt majónes (dass en ekki of mikið)
50g rifinn ostur 

Leiðbeiningar:

  1. Skerið kjúklinginn í litla bita og kryddið með roasted garlic and pepper.
  2. Skerið niður allt grænmetið og blandað saman í skál.
  3. Setjið hrísgrjónapoka í pott og bíðið eftir suðunni og lækkið hitann og leyfið að malla.
  4. Hitið pönnuna með olíunni á og setjið kjúklingabitanna út á pönnuna og steikið. Bætið síðan grænmetinu út á pönnuna og bætið smá olíu við og steikið þar til kjúklingurinn og grænmetið er farið að brúnast.
  5. Bætið hrísgrjónunum út á pönnuna og setjið 2 msk smjör, leyfið að bráðna örlítið. Kryddið síðan með karrí og túrmerik. Hrærið saman við kjúklinginn og grænmetið á pönnunni þar til allt er orðið fulleldað.
  6. Setið réttinn í skálar, toppið með því að rífa mozarella kúlurnar yfir og rifinn ost. Hellið síðan léttu majónesi og sriracha sósu yfir. Í lokin bætið svo við ferskum kirsuberjatómötum.

Tilvalið er að bera réttinn fram með naan brauði eða hvítlauksbrauði.

Njótið vel!

Ég vil skora á miðvörðinn og stórvin minn, Baldvin Hólm Júlíusson. Hann skrifar reglulega gestapistla inn á hópinn „Air fryer – uppskriftir og hugmyndir“ á Facebook og er maðurinn sem þjónar fá ráðlegginar um hvernig elda skal nautakjöt. Þessi áskorun ætti því að vera leikur einn fyrir hann.

Fleiri myndbönd