1.7 C
Selfoss

ONÍ á Sólheimum

Þann 3. júní kl. 15:00 opnar Guðrún Arndís Tryggvadóttir sýninguna ONÍ í vestursal Sesseljuhúss umhverfisseturs á Sólheimum í Grímsnesi. Sýningin stendur til 20. ágúst.

„Í verkunum á sýningunni er ég að kafa ofan í (ONÍ) efnisheiminn, jörðina og hafið og reyna að skoða sögu okkar í jarðlögum annars vegar og ástandi lífsins í hafinu hins vegar. Með verkunum er ég að leitast við að leiða mig sjálfa og nú áhorfendur, í ferðalag til að skoða það sem er okkur annars ekki sýnilegt og við leiðum hugann jafnvel ekki að, öllu jafna.Í stórum dráttum má segja að ég sé að fjalla um tímann, breytingar sem verða á umhverfið beint og óbeint af okkar völdum og þá staðreynd að öll efnisleg gæði, grundvöllur lífs okkar, komi úr jörðinni og úr hafinu og snúi þangað aftur að lokum,“ segir Guðrún.

Sýningunni fylgir sýningarskrá á íslensku og ensku.

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún fékk inngöngu í Myndlista- og handíðaskólaÍslands sextán ára gömul, fór í framhaldsnám til Parísar og síðan til München þar sem hún hlaut æðstu verðlaun akademíunnar við útskrift. Tveggja ára dvöl á Íslandi fylgdi í kjölfarið, starfslaun listamanna og einkasýning á Kjarvalsstöðum 1987 en síðan fór hún til Berlínar í eitt ár og til Bandaríkjanna í fimm ár þar sem hún tók þátt í fjölda sýninga.

Hún átti síðan eins árs viðdvöl á Íslandi veturinn 1992-1993 og stofnaði þá myndmenntaskólann Rými. Síðan lá leiðin aftur til Þýskalands þar sem hún stofnaði hönnunarstofuna Kunst & Werbung, málaði og var m.a. fengin til að hanna minnisvarða fyrir borgina Großalmerode.

Guðrún sneri aftur til Íslands um aldamótin 2000. Eftir heimkomuna urðu nátturuvernd og umhverfismál henni æ mikilvægari. Árið 2004 hóf hún undirbúning að stofnun umhverfisvefsins Náttúran.is sem hún rak til ársins 2016.

Frá árinu 2017  hefur  hún starfað sem landvörður meðfram listsköpun sinni og rekið fræðslu- og útgáfufélagið Listrými sem gaf m.a. út bókina Lífsverk – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar árið 2019 en Ámundi var einn virtasti  lista- og handverksmaður 18. aldar á Suðurlandi.

Guðrún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, bæði á sviði umhverfismála og menningarmiðlunar sem og fyrir myndlist sína.Verk hennar byggja á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni en hún gerir sífellt tilraunir með nýja tækni og frásagnaraðferðir í list sinni. Nánar um verk og feril Guðrúnar á www.tryggvadottir.com.

Fleiri myndbönd