-4.5 C
Selfoss

Frábær árangur á Vormóti HSK

Vormót HSK fór fram miðvikudaginn 17. maí síðastliðinn. Aldrei hafa jafn margir keppendur skráð sig til leiks á mótið eða 117 einstaklingar sem er eflaust því að þakka að mótið flokkaðist sem Global Calendar mót. Samkvæmt nýjum reglum er aðeins hægt að ná lágmörkum á stórmót á mótum sem hafa þann stimpil. Einum keppanda á mótinu tókst að ná lágmarki fyrir stórmót en það var Hera Christensen frá FH en hún náði lágmarki inn á EM 20 ára og yngri í kringlukasti sem fer fram í lok sumars.

Aðalstyrktaraðili mótsins var verslunin Fætur toga en eigendur verslunarinnar höfðu heitið því að hver sá sem myndi slá Íslandsmet í fullorðinsflokki á mótinu myndi frá 100.000 kr. Inneign í versluninni. Ekkert Íslandsmet féll á mótinu en það stóð tæpt því Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH hljóp undir Íslandsmeti í 100m hlaupinu en því miður mældist vindur of mikill og metið fæst því ekki staðfest. Hann hljóp á 10,37 sek. en metið er 10,51 sek. Allir gullverðlaunahafar mótsins fengu að auki gjafapoka frá Fætur toga.

Sjö HSK met voru sett á mótinu en Þorvaldur Gauti Hafsteinsson Umf. Selfoss bætti metið í 800m hlaupi í flokki 16-17 ára. Hann varð annar í hlaupinu á 2:02,73 og bætti þar með 26 ára gamalt héraðsmet. Örn Davíðsson Umf. Selfoss tvíbætti héraðsmet karla í spjótkasti og kastaði lengst 71,43m sem skilaði honum öðru sæti á mótinu. Kastið er einnig met í öldungaflokki 30-34 ára. Bryndís Embla Einarsdóttir Umf. Selfoss tvíbætti svo eigið héraðsmet í spjótkasti 14 ára stúlkna með kasti uppá 36,08m með kvennaspjótinu.

Guðmunda Ólafsdóttir,
formaður frjálsíþróttaráðs HSK

Fleiri myndbönd