-7.3 C
Selfoss

Eftirsjá að tannlæknaþjónustu á Hvolsvelli

Vinsælast

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.Oft eru bornir saman kostir og gallar þess að búa í þéttbýli eða dreifbýli, á höfuðborgarsvæðinu eða í minni samfélögum. Ég er svo heppinn að hafa upplifað þetta allt og þekki af eigin raun mismuninn. Hef búið bæjarfélagi í Danmörku, í Reykjavík, Ólafsvík, Hvolsvelli, á Bifröst og nú í dreifbýli í Rangárþingi eystra. Höfuðborgarsvæðið hefur auðvitað uppá margt spennandi að bjóða í fjölbreytileika sínum. Við sem búum út á landi gleymum því stundum hvað hver og einn einstaklingur getur skipt miklu máli þó að í sjálfu sér getum við einnig talað um það í stærra samhengi. Einnig hve miklu máli skiptir að hafa fjölbreytta þjónustu á sem allra flestum sviðum. Við losnum við umferðaröngþveiti og ákveðna spennu og tímaeyðslu sem henni fylgir. Oftast er létt að koma börnum á leikskóla og eldri borgurum á hjúkrunar- og dvalarheimili í dreifbýlinu þó að auðvitað séu undantekningar þar á. Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grunnforsendum gæðabúsetu.

En nú eru breytingar í farvatninu á Hvolsvelli, því tannlæknastofan hefur hætt starfsemi efir hálfrar aldar þjónustu við íbúana. Áður en tannlæknastofa kom á Hvolsvöll sóttu íbúar Rangárvallasýslu þá þjónustu á Selfoss eða til Reykjavíkur. Ég fór sem lítill drengur með mjólkurbílnum á Selfoss til Páls Jónssonar tannlæknis, það var svolítið sport út af fyrir sig og bjargaði tannheilsu minni. Breyting varð á þessum málum þegar Sæmundur Holgersson tannlæknir opnaði tannlæknastofu á Hvolsvelli, ásamt eiginkonu sinni Guðbjörgu Guðmundsdóttur. Þar höfum við notið einstakrar þjónustu og fagmennsku í hálfa öld. En nú hafa þau ákveðið að hætta  störfum fyrir aldurssakir. Það er mikill missir af þessari góðu þjónustu. Ég hef oft hugsað til þess, þegar ég hef sest í tannlæknastólinn hjá þeim; um tímasparnaðinn svo ekki sé talað um kolefnissporið sem sparast sem fólk talar oft um í nútímanum. Það er afar mikil eftirsjá af þessari starfsemi. Við vonum svo sannarlega að við fáum nýjan tannlækni á staðinn til þess að létta okkur óþarfa ferðalög og tímaeyðslu. Með þessum línum langar mig til þess að þakka þeim Sæmundi og Guðbjörgu fyrir þessa frábæru þjónustu sem þau hafa sinnt í svona langan tíma og ég efast ekki um að ég tala fyrir mjög margra viðskiptavina þeirra. Þau hafa svo sannarlega látið sig varða ýmis samfélagsmál hér á Hvolsvelli, lagt lið, bæði í félagsstarfi og fyrir samfélagið sjálft. Þau minna okkur á hvað hver og einn íbúi getur skipt miklu máli.

Ísólfur Gylfi Pálmason

Nýjar fréttir