7.3 C
Selfoss

Nemendur hafa komið fram á um 140 viðburðum í vetur

Vinsælast

Skólaárið 2022 – 2023 hefur verið mjög viðburðaríkt og skemmtilegt og hafa nemendur komið fram á um 140 viðburðum í vetur.

Ef við stiklum á stóru má nefna strengjamót sem haldið var á Selfossi í haust, en það sóttu um 250 nemendur af öllu landinu. Mikil vítamínsprauta fyrir þá nemendur sem tóku þátt. Október menningarmánuður í Árborg tók svo við með tónlistarflutningi vítt og breitt í Árborg og á deildatónleikum í nóvember komu fram hljómsveitir og samspilshópar auk minni samleiksatriða og einleiks. Söngnemendur færðu okkur jólakveðju tónlistarskólans 2022 með laginu Jól eftir Jórunni Viðar, en upptöku má sjá og heyra á fréttasíðu skólans. Kennarar og nemendur tóku þátt í jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands í desember, hópur nemenda kom fram á mið- og framhaldsdeildatónleikum í Selfosskirkju og gítarhópur tók þátt í hátíðartónleikum Nótunnar í Hörpu. Auk þessara stóru viðburða hafa nemendur komið fram á hefðbundnum haust- og vortónleikum, upprifjunardögum, Suzuki-útskriftartónleikum, jólaböllum, á hjúkrunarheimilum sýslunnar og víðar.

Stærsti viðburður vetrarins var án efa tónleikarnir á Laugarvatni sem tileinkaðir voru Gunnari Þórðarsyni. Þar léku 130 nemendur og kennarar margar af helstu perlum Gunnars, fyrir um 300 áheyrendur. Var þetta mjög skemmtileg upplifun bæði fyrir flytjendur og áheyrendur, ekki síst fyrir það að Gunnar var sjálfur viðstaddur tónleikana.

Hildur Tanja Karlsdóttir, lauk framhaldsprófi í fiðluleik frá Tónlistarskóla Árnesinga í vor, með glæsilegum lokatónleikum í Hveragerðiskirkju 15. maí. Við óskum Hildi Tönju til hamingju með þennan stóra áfanga.

Smiðjuvikan í lok mars var nýjung á skólaárinu, en þar fengu nemendur tækifæri til að taka þátt í ýmiskonar tónlistarnámskeiðum í stað hefðbundinna kennslustunda. Nemendur lærðu m.a. að hljóðsetja kvikmyndir, meðferð og umhirðu hljóðfæra og tóku þátt í margskonar spuna- og slagverkssmiðjum. Skemmtilegt uppbrot fyrir bæði nemendur og kennara.

Frá smiðjuviku – kvikmynd hljóðsett.

Svo fjölþætt starf verður ekki unnið nema með faglegum vinnubrögðum og samhentum hópi kennara. Við erum svo lánsöm að kennarahópurinn er einstaklega öflugur og metnaðarfullur fyrir hönd sinna nemanda og skilar það sér með skýrum hætti í starfsemi skólans, svo eftir er tekið, en Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veittu skólanum Menntaverðlaun Suðurlands 2022. Verðlaunin eru okkur öllum hvatning til enn frekari dáða á komandi árum.

Við þökkum nemendum, foreldrum og kennurum ánægjulega samfylgd í vetur, en hlökkum um leið til komandi skólaárs og nýrra ævintýra. Hvetjum við fleiri til að slást í hópinn, en sækja má um skólavist á heimasíðu skólans www.tonar.is.

Helga Sighvatsdóttir
skólastjóri

Nýjar fréttir