3.4 C
Selfoss

Oddi á Rangárvöllum í sviðsljósið

Á dögunum heimsótti Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskipta-og menningarmálaráð-herra Odda á Rangárvöllum. Ágúst Sigurðsson formaður Oddafélagsins tók á móti ráðherra og þar komu til fundar við hana sveitarstjórar hreppanna í Rangárþingi Anton Kári Halldórson, Jón G Valgeirsson og Valtýr Valtýsson. Helgi Þorlákson prófessor fór yfir sögu og rannsóknir á ritmenningu Odda. Um aldir var Oddi eitt fremsta menningarsetur landsins ásamt Haukadal, Skálholti, Reykholti og Hólum.

Oddaverjar voru í eðli sínu friðsamir menntamenn og farsælir höfðingjar og ein af hinum stóu og valdamiklu ættum landsins.  Sæmundur fróði er enn þjóðsagnapersóna sem flestir kunna sögur af. Háskóli Íslands rekur storfnun Sæmundar fróða en stofnunin er rannsókna- og kennslustofnun.

Ágúst gekk með gesti í Oddakirkju og fræddi þá um framtíðarsýn Oddafélagsins. Gestirnir hlustuðu á tónverk Gunnars Þórðarsonar Á Gammabrekku eftir Matthías Jochumsson sem var prestur um tíma í Odda. Í kirkjunni var rætt um hugmyndir um uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda þar á meðal fjölnota menningarhús ,,Sæmundarstofu.” Oddi er einn af okkar allra merkustu sögu-stöðum, þar bjó Sæmundur fróði Sigfússon og afkomendur hans í tvær aldir, auk þess sem okkar helsti rithöfundur og sagnaritari Snorri Sturluson var þar í fóstri frá 3ja ára aldri til 23 ára hjá Jóni Loftssyni sonarsyni  Sæmundar fróða og hlaut þar menntun sína. Þriðja kona Snorra var svo Hallveig Ormsdóttir frá Breiðabólstað, ríkasta kona landsins, sonardóttir Jóns Loftssonar. Þau gerðu með sér helminga-skiptafélag og bjuggu í Reykholti.

Kristborg Þórisdóttir gekk síðan með gestina og sýndi þeim fornleifarannsóknir eða Oddarannsóknirnar sem nú fara fram á staðnum. Vísbendingar eru um manngerða hella frá miðöldum en áætluð stærð hellakefisins, syðst í túninu í Odda, eru um 400 fermetrar. Rannsóknir benda til að byggð hafi verið í Odda um og fyrir árið 950. Lilja Alfreðsdóttir hét Oddafélaginu sínum stuðningi við hin stórhuga áform og gerðist félagi í Oddafélaginu.

Fleiri myndbönd