-4.4 C
Selfoss

Gaman að lesa fyrstu bækur nýrra höfunda

…segir lestrarhesturinn Ægir E. Hafberg

Ægir E. Hafberg  fæddist í Reykjavík árið 1951 en flutist til Flateyrar sem barn og ólst þar upp. Hann er því Vestfirðingur og er stoltur af því. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og lærði síðar viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Ægir starfaði mestan hluta starfsævi sinnar við bankastörf. Fyrst í gamla Iðnaðarbankanum, síðar sem sparisjóðsstjóra á Flateyri og síðustu 20 árin sem útibússtjóri Landsbankans í Þorlákshöfn. Ægir er kvæntur Margréti Thorarensen og eiga þau tvö börn og sex barnabörn.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Nú er ég að lesa tvær skáldsögur Játningu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og bókina Gegn gangi leiksins eftir Braga Ólafsson. Ég las bók Ólafs Snertingu og varð mjög hrifinn og lofar bókin Játning mjög góðu. Það var fyrir áeggjan sonar míns að ég las bók Braga og varð ég nokkuð hrifinn. Bækur í takt við bók Braga eru þó ekki efstar á vinsældarlista hjá mér.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Margar tegundir bóka höfða til mín. Hef mjög gaman af að lesa ævisögur og þá helst um útgerðarmenn eða burðarása sinna samfélaga. Margir þeirra hafa barist úr sárri fátækt en farnast vel og hafa þeir margt til málanna að leggja sem vert er að íhuga. Ég var lengi að samsvara mig við skáldverk Arnaldar Indriðasonar en nú hef ég lesið allar hans bækur og líkar vel. Einnig er ég hrifinn af spennusagnaskrifum Ragnars Jónassonar.

Fékkstu lestraruppeldi í æsku?

Við vorum sex systkinin og ég minnist þess ekki að lesið hafi verið fyrir okkur eldri börnin. Það var lagt að okkur að læra að lesa og lærðum við það ung og gátum því bjargað okkur sjálf með lestur. Það var gott bókasafn á heimilinu og vinsælasta jólagjöfin var mörg árin jólabók. Á mínum unglingsárum voru það bækur eftir Ármann Kr. Einarsson, Enid Blyton eða Alistair MacLean sem voru vinsælastar. Þetta voru ævintýra- og spennubækur sem við lásum spjaldanna á milli. Nú hef ég mikla ánægju af að lesa fyrir barnabörnin mín og einn afastrákurinn vill alltaf heyra sömu bókina og látum við það yfir okkur ganga.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Nú les ég aðallega á kvöldin og er ekki tilbúinn að fara að sofa fyrr en ég er búinn með einn eða tvo kafla í bókinni sem er á náttborðinu. Ég minnist þess frá unglingsárunum þegar við bræðurnir háðum keppni um það hversu lengi við gátum lesið áður en við sofnuðum. Oft var lesið fram á miðja nótt, sérstaklega um jólaleytið. Reyndar les ég enn dagblöðin á morgnana með hafragrautnum.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?

Ég á marga uppáhalds höfunda og vil þar nefna Arnald Indriðason, Ragnar Jónasson og Jón Kalman Stefánsson og reyni alltaf að lesa nýjustu bækur þeirra. Eins finnst mér gaman  að lesa fyrstu bækur eftir nýja höfunda og gefa þeim þannig tækifæri.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ég minnist þess að spennusagan Byssurnar frá Navarone eftir Alistair MacLean var ansi spennandi og vakti ég langt fram á nótt við lestur þeirrar bókar. Það getur líka verið spennandi að bæta við einum kafla í lestri hjá Arnaldi Indriðasyni þótt löngu sé komin svefntími.

En að lokum Ægir, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Það er margt sem ég hef tekið mér fyrir hendur en ég tel nokkuð öruggt að rithöfundur verð ég ekki. En gerðist það mundi ég vilja skrifa um lífið og tilveruna í litlu sjávarþorpi þar sem lífið snerist um sjómennsku og svaðilfarir því ég starfaði á sjó í sumarleyfum  öll mín námsár og hef alltaf haft taugar til sjómennskunar.
______________________________________________

Umsjón með Lestrarhestinum hefur Jón Özur Snorrason.
Tillögur að Lestrarhestum má senda á jonozur@gmail.com.

Fleiri myndbönd