Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum síðastliðinn mánudag að hin rafræna íbúakönnun um miðbæinn, sem fyrst var kynnt í nóvember, muni standa yfir í eina viku og hefjast á morgun, fimmtudaginn 18. maí.
Könnunin snýst um breytingu á núverandi deiliskipulagi í þeim tilgangi að bæta tengsl miðbæjarhverfisins við Sigtúnsgarðinn. Breytingin var tekin fyrir í skipulagsnefnd Árborgar í janúar á þessu ári og í framhaldinu í bæjarstjórn. Í febrúar var breytingin auglýst samkvæmt lögum og frestur íbúa til að gera athugasemdir rann út rétt fyrir páska. Aðeins bárust tvær umsagnir sem brugðist hefur verið við. Fyrir lokaafgreiðslu málsins var ákveðið að kanna hug íbúa til málsins með þessari könnun.
Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar, segir mikilvægt að kalla eftir áliti bæjarbúa með þessum hætti. „Þó ekki sé um að ræða bindandi formlega kosningu, heldur ráðgefandi könnun sem bæjarstjórn lítur til við endanlega afgreiðslu málsins þá skiptir miðbæjaruppbyggingin og allt sem henni fylgir okkur öll miklu máli. Ég hvet alla til þess að taka þátt. Það er mjög einfalt að gera með síma eða tölvu og tekur aðeins nokkrar sekúndur“, segir Bragi.
Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags, segir að þrátt fyrir að miðbæjaruppbyggingin hafi fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð þá hafi Sigtún lagt áherslu á að sveitarfélagið leitaði álits íbúa á þessari breytingu, þó lítil sé. „Það er af prinsipástæðum. Íbúar samþykktu núverandi deiliskipulag miðbæjarins í íbúakosningu í ágúst 2018. Sá stuðningur var okkur gríðarlega mikilvægur. Nú þegar seinni áfangin verkefnisins er að hefjast og kallar á breytingu á þessu sama skipulagi þá finnst okkur skipta máli að íbúar séu upplýstir og geti sagt sína skoðun,“ segir hann.
„Aðalmunurinn á gildandi skipulagi og því nýja felst í að gert verður opið almenningassvæði, sem kalla mætti ílangt torg eða göngugötu, þar sem Sigtúnsgarður og miðbæjarbyggingar mætast. Það býður upp á mjög skemmtilega möguleika, þar sem miðbærinn snýr „andlitinu“ betur en áður að garðinum. Við þetta færast lóðamörkin til, og það kallar meðal annars á deiliskipulagsbreytinguna,“ segir hann.
Allir íbúar Árborgar, 16 ára og eldri, geta tekið þátt í könnuninni með rafrænum skilríkjum. Spurt verður einnar já/nei spurningar um það hvort svarandi sé hlynntur breytingartillögunni er varðar uppbyggingu á miðbæ Selfoss í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag við Árborg og tillögu að breytingu á deiliskipulagi.
Opinn kynningafundur fyrir íbúa um málið verður á Sviðinu í miðbænum mánudaginn 22. maí kl 18. Fundarstjóri verður Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri og munu Leó Árnason stjórnarformaður Sigtúns og Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs, kynna breytinguna og svara spurningum.