Hermann Örn Kristjánsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Ég þakka Björgvini fyrir álitið og mun reyna að standa undir sömu væntingum hér og hann gerir til mín í söngnum. Það er við hæfi að draga fram uppskrift sem ég komst yfir á Ítalíu fyrir margt löngu og hefur fylgt okkur fjölskyldunni síðan ásamt mörgum réttum sem eru of sjaldan eldaðir.
Túnfisk Spaghetti
Hráefni
500 gr. spaghetti no. 5
1 dós af túnfiski í olíu
3 meðalstórar gulrætur
150 gr. sveppir
10 cm bútur úr meðalstórum blaðlauk
2 stórir hvítlauksgeirar
1 sítróna
steinselja
Karrý
Salt
Pipar
Ólífuolía
Setjið vatn í pott og vel af olíu og salti. Ég set trúlega ekki minna en tvær matskeiðar af olíu og teskeið af salti en það má vera meira. Látið vatnið sjóða, hrærið vel í pottinum og setjið svo spaghettíið út í. Lækkið hitann og látið spaghettíið liggja í 10 til 12 mínútur.
Skerið gulræturnar, sveppina og blaðlaukinn í þunnar sneiðar og hitið vel á olíuborinni pönnu þar til allt er orðið mjúkt og kremað. Kreistið hvítlaukinn og tætið túnfiskinn út dósinni og bætið öllu á pönnuna. Hrærið í vel í heitri pönnunni í 2-3 mínútur og kryddið hressilega með karrý og smá pipar.
Hellið vatninu af spaghettíinu og setjið það svo á pönnuna. Bætið við smá olíu, hrærið vel í öllu saman og setjið diska. Kreistið sítrónu yfir diskinn og stráið yfir smáskorinni steinselju.
Hvítlauksbrauð
Hráefni
1 baguette brauð rist í tvennt
1/4 bolli smjör
2 hvítlauksrif
2 msk steinselja, söxuð
Hitið ofninn í 180°
Saxið eða kreistið hvítlaukinn og hrærið saman við smjörið sem þarf að vera við stofuhita. Smyrjið brauðið vel setjið ofninn í 10-15 mín eða þar til smjörið er allt bráðnað og brauðið farið að taka á sig brúnan lit. Stráið saxaðri steinselju yfir. Einnig er gott að strá örlittlu sjávarsalti í flögum yfir eftir smekk.
Berið þetta allt saman fram með skeið og gaffli og góðum drykk við hæfi.
Ég vil skora á Ölmu Jenný Sigurðardóttur, kennara, ferðamálafrömuð, heimshornaflakkara og frænku mína í Árbæ Flúðum. Alma Jenný hefur farið víða um heim og hefur einstakt lag á því að vinna sér inn vinsemd og matarást þeirra sem hitta hana og til hennar koma. Ég veit að það verður engin svikinn af uppskriftum frá henni.