1.7 C
Selfoss

Kvenfélagskona ársins

95. ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna var haldinn að Borg í Grímsnesi 29. apríl sl. og var þar tilkynnt um val á Kvenfélagskonu ársins. Það eru kvenfélögin innan SSK sem tilnefna konur úr sínum hópi til þessarar viðurkenningar.

Kvenfélagskona ársins 2022 er Guðrún Þóranna Jónsdóttir í Kvenfélagi Selfoss. Hún hefur starfað óslitið í félaginu síðan 1998 og gegnt þar flestum stjórnar- og nefndarstörfum. Hún starfaði í ritstjórn og útgáfunefnd bókarinnar Þannig vinni samtök svanna, sögu Kvf. Selfoss sem kom út á 70 ára afmæli félagsins 2018. Hún var innig ritari SSK í 6 ár ásamt því að sinna öðrum trúnaðarstörfum fyrir það. Guðrún Þóranna var formaður ritstjórnar Húsfreyjunnar um árabil.

Elinborg Sigurðardóttir formaður SSK lýsti valinu og í umsögn sem fylgdi tilnefningunni kom fram  að Guðrún Þóranna væri jákvæð, hugmyndarík og vinnusöm og alltaf til í að styðja við góðar hugmyndir og vinna að framgangi þeirra.  Var henni þar lýst sem „kvenfélagskonu af lífi og sál“. Elinborg færði henni hamingjuóskir og þakkir fyrir störf sín innan SSK, afhenti henni heiðursskjal og blómvönd  ásamt kökukeflinu góða, sem er farandgripur með nöfnum þeirra kvenna er hlotið hafa þessa viðurkenningu.

Stjórn SSK

Fleiri myndbönd