Hin 16 ára gamla Bergrós Björnsdóttir frá Selfossi hefur unnið sér inn rétt til þess að keppa á Heimsleikunum í CrossFit árið 2023 í 16-17 ára aldursflokki en Bergrós er yngst keppenda í sínum flokki. Þetta er annað árið í röð sem Bergrós nær að vinna sér inn rétt til þess að keppa á heimsleikunum en hún er bæði eini íslenski unglingurinn og eina stúlkan á Norðurlöndum sem komst alla leið áfram í unglingaflokki.
Heimsleikarnir í CrossFit, eða The CrossFit Games, verða haldnir í Madison, Wisconsin í byrjun ágúst næstkomandi og er undirbúningurinn nú þegar hafinn af fullum krafti hjá þessari öflugu íþróttakonu.
Ein af topp tíu
Bergrós þurfti að komast í gegnum þrennar undankeppnir til þess að komast á heimsleikana.
Í fyrstu undankeppninni, The CrossFit Open, voru rúmlega 2000 stelpur á aldrinum 16-17 ára um allan heim skráðar til leiks. Þar af komust 200 stelpur áfram í næstu keppni. Efstu 30 stelpurnar komust inn í þriðju og síðustu undankeppnina og að lokum var sigtað niður í efstu 10 stelpurnar sem komust alla leið inn á heimsleikana The Crossfit Games.
Þetta ferli þurfa allir aldurshópar bæði í karla og kvennaflokki að fara í gegnum en alls eru þetta 18 flokkar fyrir utan einstaklinga í opnum flokki og liðin og því töluverður fjöldi samankominn af öflugasta CrossFit fólki heims.
Gríðarlegur kostnaður
CrossFit er hvorki undir neinu íþrótta- né ungmennafèlagi og lendir því allur kostnaður og uppihald fyrir þjálfarann hennar alfarið á Bergrós og foreldrum hennar en þau fara nokkrum vikum fyrir heimsleikana í æfingabúðir til USA.
Það er gríðarlega mikill kostnaður sem fylgir því að vera afreksunglingur á heimsmælikvarða í íþróttum og hefur því verið stofnaður styrktarreikningur fyrir Bergrós ef einstaklingar og/eða fyrirtæki hafa tök á því að styðja við þessa öflugu stelpu sem lætur ekkert stoppa sig.
Þau sem vilja styðja við bakið á okkar eigin Bergrós geta lagt inn á eftirfarandi reikningsnúmer: