-9.8 C
Selfoss

Sunnlendingar eignuðu sér verðlaunapallinn á Sindratorfærunni

Skúli Kristjánsson á Simba sigraði í Sindratorfærunni á Hellu sem fram fór um síðustu helgi. Sunnlendingar skipuðu fjögur efstu sætin, auk þess að hreppa tilþrifaverðlaun.

Íslandsmeistarinn Haukur Viðar Einarsson á Heklu leiddi framan af, en eftir að bilanir fóru að segja til sín,komst Skúli Kristjánsson á Simba fljótt upp í fyrsta sætið og hélt því út keppnina og stóð uppi sem sigurvegari.Geir Evert Grímsson á sótti hart að Skúla og hefði í síðustu braut getað skotið sér á toppinn, en endaði í öðru sæti, 51 stigi á eftir Skúla eftir að hafa fengið 60 refsistig í mýrinni. Í 3. sæti, 8 stigum á eftir Geir, kom Ingvar Jóhannesson á Víkingnum en hann keyrði öruggt í gegnum allar brautir sem skilaði honum frábærum árangri.

Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum, fyrrum Íslandsmeistari, náði 4 sæti eftir að hafa klifrað upp stigatöfluna alla keppnina eftir mistök í fyrstu braut.

Nýliði keppninnar var Andri Már Sveinsson sem landaði 7. sæti á Kúrekanum í sinni fyrstu keppni, en Andri Már hreppti, meðal annars, tilþrifabikar keppninnar.

Samvkæmt mótshöldurum fór keppnin fram með besta móti en 23 bílar voru skráðir til leiks. Torfæran á Hellu hefur verið haldin síðan árið 1973 og hefur Flugbjörgunarsveitin á Hellu því haldið keppnina í 50 ár. Það eru um 100 starfsmenn sem gera þennan 5000 manna viðburð ógleymanlegan fyrir áhorfendur, keppendur og ekki síst þau sjálf og eflaust margir sem bíða spenntir fyrir næstu Sindratorfæru sem haldin verður þann 4. maí 2024.

Fleiri myndbönd