2.8 C
Selfoss

Fordæma uppsagnir og framkvæmd þeirra hjá Sveitarfélaginu Árborg

Í lok apríl sl. fékk fjöldi starfsmanna afhent uppsagnarbréf á ískaldan hátt frá Sveitarfélaginu Árborg. Misjafnt var hvernig uppsögnum var háttað. Dæmi voru um að starfsfólk var látið bíða í röð eftir að mæta í viðtalsherbergi þar sem þeir sem voru á undan komu út gjörsamlega niðurbrotnir. Í einhverjum tilfellum mættu fulltrúar inn á stofnanir og sáu um framkvæmd uppsagna án þess að hafa hitt viðkomandi áður. Eina sem var í boði á þessari niðurlægjandi stund voru einhverjar kennslustundir ráðgjafafyrirtækis í að leita að vinnu.

Báran, stéttarfélag og Foss stéttarfélag í almannaþjónustu mótmæla harðlega framkvæmd uppsagna starfsmanna Sveitarfélagsins Árborgar. Íbúum er mjög brugðið og ekki er séð fyrir endann á því hvað það eru margir sem koma til með að missa vinnuna. Sveitarfélögin bera ákveðnar skyldur gagnvart íbúum og samfélaginu. Hvaða áhrif mun þetta hafa á þær skyldur.

Þetta er kunnuglegt stef hjá Sveitarfélaginu Árborg því ekki er langt síðan að uppsagnir á ræstingafólki áttu að hagræða verulega í rekstri. Stéttarfélögin lýsa áhyggjum sínum yfir því að þetta bitni fyrst og fremst á

  • Konum
  • Lágtekjuhópum
  • Þjónustuþegum
  • Þjónustu almennt

Þetta eru kaldar kveðjur frá bæjarstjórn og vægast sagt lítilsvirðing fyrir störfum þessara hópa sem starfað hafa af heilum hug. Því miður virðast gömul sannindi vera að raungerast enn og aftur með því að segja þeim upp sem lægst hafa launin þegar spara þarf fjármuni, en hlífa þeim sem hæstu launin hafa. Félögin skora á bæjarstjórn að finna aðrar leiðir til hagræðingar og draga uppsagnir hjá fyrrgreindum hópum til baka. Ímynd Sveitarfélagsins Árborgar hefur orðið fyrir álitshnekk.

Það má draga þá ályktun að það sé gott að búa í Árborg á meðan þú þarft ekki á þjónustu sveitarfélagsins að halda.

F.h Foss stéttarfélags í almannaþjónustu 
Árný Erla Bjarnadóttir formaður

F.h Bárunnar, stéttarfélags
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir Formaður                         

Fleiri myndbönd