-6.6 C
Selfoss

Að lesa í sólstofunni með frúna mér við hlið

…segir lestrarhesturinn Sigurður Halldór Jesson

Sigurður Halldór Jesson er grunnskólakennari fæddur í Reykjavík á því herrans ári 1970. Fluttist hann í Breiðholtið þegar það var að byggjast upp. Þar eyddi hann uppvaxtarárum sínum við góðan kost í nánum tengslum við náttúruna m.a. við að reka kindur úr garði æskuheimilisins. Á Selfoss flutti Sigurður með eiginkonu sinni Guðbjörgu Grímsdóttur árið 2004 í miðju kennaraverkfalli. Á Selfossi unir Sigurður hag sínum vel með sinni dásamlegu eiginkonu og tveimur táningssonum.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Þessa stundina er ég að lesa nokkrar bækur. Fyrst nefni ég bókina Bono: Samtöl við Michka Assayas. Ég er gríðarlegur aðdáandi írsku stórhljómsveitarinnar U2 og vil með lestri þessarar bókar skyggnast aðeins á bakvið tjöldin og fá innsýn í líf söngvarans Bono. Síðan er það bókin Hamlet í þýðingu Þórarins Eldjárns. Ja,hvað skal segja! Ég hef gaman af því að lesa vel þýddar bækur og þegar Þórarinn tók þetta þýðingarverk að sér, þá bara varð ég að lesa hana. Bókin er konfekt og ég les hana í smáum skömmtum með öðrum bókum. Næst er það bókin Rof eftir Ragnar Jónasson en ég fór að lesa verk Ragnars í fyrsta sinn á síðasta ári og hef alveg kolfallið fyrir þessum Siglufjarðarbókum hans. Fjórða bókin sem ég er að lesa þessa stundina og er þar um endurlestur að ræða, er bókin Dóttir mæðra minna eftir Sindra Freysson. Hann er bekkjarbróðir minn úr grunnskóla og ég er eiginlega lesa hana aftur til að tengja betur við bók sem ég las nýlega eftir hann sem heitir Flóttinn. En þessar tvær sögur tengjast og ég byrjaði á öfugum enda.

Hvernig bækur höfða helst til þín?

Sögulegar skáldsögur höfða mikið til mín. Það er eitthvað svo gaman að upplifa söguna í gegnum skáldsögu. Ég hef líka mjög gaman af glæpasögum og eru það helst þessar norrænu glæpasögur sem ég heillast af. Æviminningar höfða líka til mín, ég tala nú ekki um ef um landkönnuði er að ræða eða fólk sem hefur tekist á við erfiðar aðstæður. Ég glugga líka oft í fræðibækur og get vel tekið skorpu í þeim annað slagið. Helst eru það bækur um náttúruvísindi sem heilla mig. Vel skrifuð bók í þeim flokki getur verið gríðarlega skemmtileg svo ekki sé meira sagt.

Varstu alinn upp við lestur bóka?

Ég var alinn upp við mikinn lestur. Foreldrar mínir lásu mikið fyrir okkur systkinin og voru þar fjölbreyttar bækur undir. Ævintýraheimur Múmínálfanna eftir Tove Jansson var mikið lesinn og einnig bækur Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna, Pál Vilhjálmsson og Í afahúsi. Astrid Lindgren átti líka stóran þátt í minni barnæsku. Lína langsokkur þótti mér stórskemmtileg persóna, Emil í Kattholti lét mann líka stundum skella upp úr en mest áhrif á mig hafði Bróðir minn Ljónshjarta. Hún er mín uppáhaldsbók úr barnæskunni og er enn. Ég las líka Hjalta bækurnar eftir Stefán Jónsson auk ýmissa annarra bóka t.d. eftir Ármann Kr. Einarsson.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Mest af mínum lestri fer fram um helgar og á frídögum. Þá sit ég í sólstofunni minni með góðan kaffibolla og oftar en ekki með frúna mér við hlið og les af miklum móð. Ég nýti líka sumarfríið vel til lestrar.

Einhverjir uppáhlds rithöfundar?

Ég bíð alltaf spenntur eftir nýrri bók eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og myndi teljast minn uppáhalds höfundur. Ljóðrænn texti hans höfðar mjög til mín og hans hversdags sögur. Næstur á eftir honum kemur Halldór Kiljan Laxness. Hann er mergjaður og sögur hans um baráttuna í þessu landi okkar höfða mjög til mín.

Hefur bók einhverntímann rænt þig svefni?

Nei, ég get ekki sagt í hreinskilni að bók hafi rænt mig svefni þar sem ég les einfaldlega ekki uppi í rúmi. Ég get hins vegar sagt að efni bóka hefur oft haldið fyrir mér vöku á þann hátt að ég hef verið að hugsa um það sem ég hef þegar lesið og velt fyrir mér hvað gæti mögulega gerst í framhaldinu. Þannig að bakvinnsla bóka hefur stundum seinkað því að ég festi svefn.

En að lokum Sigurður, hvernig verk myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Áhugi minn á sögulegum skáldsögum myndi að öllum líkindum verða þess valdandi að fyrsta skáldsagan mín yrði af þeim toga. Í kjölfarið gæti ég svo leiðst út í að skrifa rómantískar skáldsögu með hasarívafi. Ég gæti líka alveg séð fyrir mér að skrifa barnabækur með myndskreytingum þar sem skógarlíf og lífið í tengslum við náttúruna yrði í forgrunni.

______________

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Fleiri myndbönd