-10.3 C
Selfoss

„Alltaf svo ljúf og hjartahlý“

Síðastliðinn fimmtudag barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um andlát í heimahúsi á Selfossi. Hin látna hét Sofia Sarmite Kolesnikova og var á 29. aldursári, en systir hennar, Valda Nicola, minntist hennar í hugnæmri færslu á Facebook, þar sem hún þakkar fyrir hverja mínútu sem þær fengu saman og talar um hjartahlýju og heilbrigðan lífsstíl sem einkenndi Sofiu.

„Þú varst manneskjan sem þekkti innihaldslýsinguna  í öllu sem þú borðaðir, í öllu snyrtidóti og hverjum safa sem þú drakkst því þú hugsaðir svo mikið um heilbrigðan lífstíl og mataræði.Það var eins og þú værir að undirbúa þig til að lifa þangað til þú yrðir 200 ára. Þú ert eina manneskjan sem ég þekki í lífi mínu sem aldrei neytti áfengis, aldrei reykti eða gerði neitt af þessum slæmu hlutum. Þú varst alltaf svo ljúf og hjartahlý,“ segir í Facebook-færslunni.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri, sem handteknir voru á vettvangi, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald fram til föstudagsins 5. maí, en samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi er grunur um að andlát Sofiu hafi borið að með saknæmum hætti. Þá segir einnig að rannsóknin sé umfangsmikil en að henni miði vel áfram og að rannsóknarvinna sé í fullum gangi. Lögreglan á Suðurlandi hefur notið liðsinnis frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem og tækni- og tölvurannsóknardeildum lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.

Fleiri myndbönd