Á dögunum hélt einn af prestunum okkar hér í Árborgarprestakalli á nýjar slóðir þegar sr. Arnaldur Bárðarson tók við embætti sóknarprests í Heydalasókn í Austurlandsprófastsdæmi. Við það losnaði embætti prests í Árborgarprestakalli og hefur nú verið ráðið í það og hér tekur nú til starfa sr. Ása Björk Ólafsdóttir og verður hún sett í embætti í Selfosskirkju við guðsþjónustu n.k. sunnudag kl. 11:00 af sr. Halldóru Þorvarðardóttur prófasti.
Ása Björk er fædd í Færeyjum en bjó síðan sem barn bæði á Íslandi og Grænlandi, en auk þess dvaldist hún mörg sumur í Landinu helga. Annars ólst hún upp í Vesturbænum í Reykjavík og í Neskaupstað. Síðar bjó hún tímabundið í London og þá í Helsinki en síðustu þrettán ár hefur hún búið í Dublin á Írlandi og gengt prestsþjónustu þar.
Áður en Ása Björk tók til við að læra guðfræði hafði hún numið myndlist og lokið kennaraprófi en hún kenndi í tíu ár áður en kom til guðfræðinámsins. Hún vígðist 2005 til Fríkirkjunnar í Reykjavík en þjónaði síðar í Kjalarnessprófastsdæmi og eftir það á Írlandi, fyrst í Kells og síðan syðst í Dublin. Í Dublin setti hún meðal annars á fót matareldhús fyrir fólk í fjárhagserfiðleikum og einnig fyrir heimilislausa. Séra Ása Björk lauk klínísku sálgæslunámi 2022 í Cork, og starfaði í framhaldinu sem sálgætir á sjúkrahúsi með fram sóknarprestsstarfinu í Dublin.
En nú bíða hennar ný og spennandi verkefni í samstarfi við sr. Guðbjörgu Arnardóttur, sr. Gunnar Jóhannesson og annað starfsfólk kirknanna hér í Árborgarprestakalli; verkefni sem henni og samstarfsfólki hennar hlakkar til að takast á við í sameiningu.
Segja má að Ása Björk sé með ákveðnum hætti að tengjast rótunum á þessum nýja starfsvettvangi því að langafi hennar, sr. Ólafur Helgason, var sóknarprestur á Stokkseyri og Eyrarbakka á árum áður, en hann var sonur hins kunna sálmaskálds sr. Helga Hálfdánarsonar – en Ólafur var afabarn sr. Tómasar Sæmundssonar sem kunnastur er sem einn Fjölnismanna en sat einnig Breiðabólstað í Fljótshlíð síðustu sex ár ævi sinnar. Ása Björk á þrjú uppkomin börn, Gabríel, Sesselju og Messíönu. Það er okkur mikið fagnaðarefni að sr. Ása Björk gengur nú til liðs við okkur. Við munum taka vel á móti henni og það er von okkar og trú að sóknarbörnin sem hún mun þjóna vítt og breytt um prestakallið muni gera slíkt hið sama. Við biðjum henni Guðs blessunar í lífi og starfi. Árborgarprestakall