1.7 C
Selfoss

Fimm verktakar sýna Ölfusárbrú áhuga

Fimm verktakar vilja taka þátt í samkeppnisútboði vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá, þar af þrír erlendir, einn íslenskur í samvinnu við erlendan verktaka og einn íslenskur.

Þetta er upphaf útboðsferilsins og í kjölfarið mun fara fram hæfnismat og þeim sem metnir eru hæfnir, verður boðin þátttaka. Í tilkynningu frá Vegagerðinni er sagt að vonir standi til að samningar náist á þessu ári, en útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Fyrirtækin sem lýst hafa yfir áhuga á þátttöku eru: Hochtief Infrastructure GmbH, Essen, frá Þýskalandi, IKI Infrastructure Systems Co., Ltd, frá Japan, Ístak hf. – Per Aarsleff A/S – Freyssinet Int., fyrir hönd óstofnaðs félags, í Reykjavík,  Puentes y Calzada Infraestructuras, S.L.U., frá Spáni og ÞG verktakar ehf, í Reykjavík.

„Mjög gott að fá svona marga áhugasama þátttakendur“

„Ég er mjög spennt,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, þegar þetta varð ljóst í gær. „Við erum hér með tvö öflug, íslensk verktakafyrirtæki, og annað þeirra er með erlenda samstarfsaðila. Svo erum við einnig með þrjá erlenda verktaka sem eru gríðarlega áhugaverðir og við verðum að skoða nánar. En það að við höfum fengið svona marga áhugasama þátttakendur í þessu samkeppnisútboði er mjög gott.“

Verkið snýst um færslu Hringvegar út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Meðal helstu verkþátta eru nýbygging 3,7 km Hringvegar, bygging nýrrar 330 m langrar stagbrúar á Ölfusá og um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Gera þarf ný vegamót við Hringveg austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Einnig er gert ráð fyrir lögnum veitufyrirtækja.

Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 m breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum aksturstefnum ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum.

Framkvæmdin fer um tvö sveitarfélög, Flóahrepp og sveitarfélagið Árborg. Og hefur Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi til beggja sveitarfélaga.

Fleiri myndbönd