Hin árlega Stóðhestaveisla Eiðfaxa fór fram sl. laugardag í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli og þökkum við staðarhöldurum fyrir gott samstarf. Eins og fyrri ár þá var uppselt á viðburðinn. Í ár var aðalstyrktaraðili viðburðarins Boli og þökkum við þeim stuðninginn.
Fjöldinn allur af frábærum hrossum komu þar fram. Við þökkum ræktendum, eigendum og knöpum þessara hrossa fyrir velvildina en án þeirra hefði sýningin aldrei orðið að veruleika.
Viljum við einnig þakka þeim fjölmörgu sem mikið lögðu á sig við undirbúning sýningarinnar og einnig þeim sem lögðu fram mikla og óeigingjarna vinnu á sýningarstað. Áhorfendum sem troðfylltu HorseDay höllina og sköpuðu stemmingu og andrúmsloft gleði, þökkum við fyrir komuna. Ekki má svo gleyma þúsundum áhorfenda víðsvegar í heiminum sem fylgdust með veislunni í beinu streymi frá HorseDay höllinni.
Söfnunin stendur til 1. maí
Sú hefð hefur skapast að ágóði af Stóðhestaveislunni hefur verið látinn renna til góðgerðarmála og hægt væri hér að birta langan lista yfir góðgerðarsamtök sem notið hafa velvilja þeirra sem sótt hafa Stóðhestaveisluna á undanförnum árum. Stóðhestaveislan á laugardaginn var engin undantekning. Að þessu sinni var hún tileinkuð börnunum og ekkjunni á Syðri-Hömrum í Rangárvallasýslu sem misstu föður sinn og eiginmann, Guðjón Björnsson, í hörmulegu slysi fyrir fáum vikum síðan. Stuðningur hestafólks og fyrirtækja sem tengjast hestaheiminum sem og annarra var að þessu sinni hreint ótrúlegur. Þessi mikli stuðningur við fjölskyldu Guðjóns sýnir enn og aftur hvað við sem þjóð stöndum saman og erum tilbúin til að leggja af mörkum þegar sárir og hörmulegir atburðir verða.
Ljóst er að yfir fimm milljónir söfnuðust á laugardagskvöldið en inn í þeirri upphæð á eftir að telja það sem skilaði sér í gegnum sölu á happdrættis-miðum. Þeir sem enn eiga eftir að tryggja sér miða geta gert það inni á heimasíðu Eiðfaxa, eidfaxi.is. Dregið verður úr seldum miðum 1. maí.
Þakklæti efst í huga
Okkur á Eiðfaxa er þakklæti efst í huga eftir laugardagskvöldið. Þakklæti til þeirra sem gáfu vinninga í happdrættið, gáfu folatolla í uppboðin, þeirra sem keyptu folatollana og happdrættismiðana og ekki síst til þeirra sem lögðu fram frjálsu framlögin á meðan á veislunni stóð. Einnig ber að minnast á vinahóp Guðjóns sem aðstoðuðu við framkvæmd happdrættisins.
Við viljum einnig þakka þulum kvöldsins þeim Ágústi Sigurðssyni og Hjörvari Ágústssyni, Óla Pétri sem var að vana í hurðinni. Björgvini Rúnari Valentínussyni í Prentmet Odda fyrir sitt framlag, KUKL sem lánuðu myndavélarnar og tæknibúnaðinn, Óskari Nikulássyni og kvikmyndatökufólkinu Þurý Báru og Nikulási Dóra, Marinó Geir Lillendahl og útsendingarfólkinu, Karlakór Reykjavíkur fyrir skemmtun í hléinu og góðum vinum og félögum á Hellu við undirbúning viðburðarins. Allir þessir aðilar sem og aðrir sem að Stóðhestaveislunni komu gáfu vinnu sína í þeim tilgangi að standa við bakið á söfnuninni.
Takk fyrir okkur!
Aðstandendur
Stóðhestaveslu Bola