3.9 C
Selfoss

Menntskælingar vikunnar – Elva Rún, Erla Rut og Ólöf Rán Pétursdætur

Í tilefni af 70 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni, þann 12. apríl sl., höfum við, í aðdraganda afmælisins, birt vikuleg viðtöl við gamla nemendur Menntaskólans að Laugarvatni, um þeirra upplifun af Menntaskólanum. Síðustu viðmælendurnir í þessum skemmtilega dagskrárlið eru systurnar Elva Rún, Erla Rut og Ólöf Rán Pétursdætur frá Hveragerði, sem allar gengu í ML en Ólöf, sú yngsta, er núverandi nemandi við skólann.

Hvaða ár varst þú í ML?

Elva: Ég byrjaði í ML haustið 2013 og útskrifaðist vorið 2017
Erla: Ég byrjaði í ML 2019 og útskrifaðist 2022.
Ólöf: Ég byrjaði í ML haustið 2020 og mun útskrifast núna í vor 2023.  

Hvaða sérstöðu telur þú að ML hafi samanborið við aðra menntaskóla á Íslandi?

Elva: Þetta er heimavistarskóli sem gerir það að verkum að nemendur kynnast ofboðslega vel og mynda náið samband í gegnum skólagönguna
Erla: Heimavistin og bekkjarkerfið
Ólöf: Það sem er sérstakt við skólann eru hefðirnar og tengslin sem nemendur ná að mynda við hvort annað og skólann.

Af hverju fórst þú í ML?

Elva Rún Pétursdóttir.

Elva: Mig langaði að prófa eitthvað alveg nýtt. Ég hafði alltaf verið í Hveragerði og mig langaði að prófa að fara aðeins að heiman. Einnig var besta vinkona mín ári á undan mér í skólanum og ég var búin að heyra góðar sögur frá henni sem kveiktu áhuga minn.
Erla: Elva systir mín sagði mér svo góða hluti um skólann og skemmtilegar sögur af félagslífinu. Ég tók líka eftir svo mikilli breytingu í henni eftir að hún byrjaði í skólanum, hún þroskaðist svo við það að vera þarna. Einnig vildu mamma og pabbi varla taka neitt annað í mál.
Ólöf: Ég fór í skólann vegna þess að vistin heillaði mig, Lífið innan veggja skólans virtist skemmtilegt og systur mínar töluðu svo fallega um hann.

Áttu þér uppáhalds minningu úr skólanum?

Elva: Þær eru svo ótrúlega margar, en böllin og fíflaskapurinn standa upp úr.
Erla: Á endalaust af góðum minningum úr skólanum en böllin, allir tónleikarnir með kórnum og bara að slæpast inní herbergi með vinunum stendur upp úr.
Ólöf: Þær eru endalausar en það sem stendur mest upp úr er þegar Covid reglurnar voru loksins að létta og við fengum að halda okkar fyrsta ball.

Hvernig upplifun var að fara að heiman og flytja inn á heimavist?

Elva: Mér fannst það ótrúlega erfitt til að byrja með. Ég er mjög heimakær þannig þetta var mikil breyting. En svo þegar maður kynntist krökkunum betur þá varð þetta léttara og þegar fór að líða á fyrstu önnina fannst mér þetta æðislegt. Það er ótrúlega gaman að búa með öllum vinum sínum þó það geti verið krefjandi á köflum.
Erla: Fyrstu 2 vikurnar voru erfiðar, að finna nýja rútínu og vini, en svo var ég ótrúlega fljót að venjast því að búa á vistinni. Fann mitt fólk og fannst rosalega gott að búa með þeim.
Ólöf: Ég hafði smá reynslu af því áður en ég fór í skólann og átti þvi ekkert erfitt með það í byrjun. Hinsvegar var það upplifun að fá að búa í húsi með bara jafnöldrum.

Ertu ennþá í sambandi við skólafélagana?

Elva: Já nokkrir af mínum bestu vinum í dag eru þeir sem ég kynntist á Laugarvatni.
Erla: Já, við vinahópurinn erum ennþá mjög góðir vinir og hittumst reglulega.
Ólöf: Þar sem ég er enþá nemandi í skólanum þá hef ég auðvitað samaband við samnemendur mína og er full viss um að það haldist eftir útskrift.

Hvers saknarðu mest við að vera í ML?/ Hvers áttu eftir að sakna mest eftir ML?

Erla Rut Pétursdóttir.

Elva: Ég sakna þess mest að vera í þessu rólega og áhyggjulausa umhverfi. Það var svo gott að klára skóladaginn, fara upp á vist í herbergi vinanna, liggja þar og spjalla og hlæja fram á rauða nótt.
Erla: Að hafa ekki alla eins nálægt mér, mér fannst svo gott að geta labbað í herbergið á móti og verið þá með öllum vinkonum mínum að spjalla.
Ólöf: Ég mun sakna þess mest að búa ekki með mínum bestu vinum og félagslífið sem skólinn býður upp á.

Hvernig telur þú að menntaskólagangan hafi mótað þig sem einstakling?

Elva: Ég held að það hafi gefið mér mikinn þroska og aukið umburðarlyndi.
Erla: Ég tel hann hafi gert mig umburðalyndari og skilningsríkari gagnvart öðru fólki.
Ólöf: Ég hef þroskast heil mikið og það krafðist mikils sjálfstraust. Einnig þarf mikla þolinmæði þegar maður býr á heimavist  sem mun henta vel þegar ég útskrifast.

Hvað tók við eftir ML / Hvað tekur við eftir ML?

Elva: Haustið eftir útskrift fór ég í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og skellti mér bara beint aftur í heimavist (fékk greinilega ekki nóg eftir fjögur ár á Laugarvatni). Síðan ferðaðist ég aðeins um Mið og Suður-Ameríku, fór í söngskóla til Danmerkur og fór síðan í Íslensku í HÍ haustið 2019. Ég útskrifaðist þaðan vorið 2022 og um haustið byrjaði ég að kenna í Grunnskólanum í Hveragerði sem mér líkar mjög vel.
Erla: Ég ákvað að fara í lýðháskóla í Noregi að læra myndlist og er þar ennþá núna, fór úr einni heimavist í aðra.
Ólöf: Eftir útskrift lanagar mig að fara í lýðháskóla og ferðast um heiminn. Ég hef ekki ákvðið mig enn á háskólanámi en það kemur með kalda vatninu.

Myndir þú mæla með því við sunnlensk ungmenni að fara í ML?

Ólöf Rán Pétursdóttir

Elva: Hundrað prósent! Þetta er æðisleg upplifun og ótrúlega gaman.
Erla: Allan daginn! Svo skemmtilegt lífið á heimavistinni.
Ólöf: Klárlega! Þetta er ómetanleg lífsreynsla og fjörið er stanslaust 

Við hjá Dagskránni viljum þakka öllum viðmælendum kærlega fyrir skemmtileg og áhugaverð svör og óskum ML um leið innilega til hamingju með 70 ára afmælið!

Fleiri myndbönd