-1.1 C
Selfoss

Íbúafundur um fjárhagsstöðu Árborgar – spurningar og svör

Rekstur sveitarfélagsins Árborgar hefur staðið höllum fæti undanfarin ár, og boðaði bæjarstjórn til íbúafundar á Hótel Selfossi fyrr í dag til að kynna fyrirhugaðar aðgerðir til að rétta úr kútnum. Fjóla St. Kristinsdóttir, sveitarstjóri í Árborg og Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs, gerðu sitt besta til að svara spurningum íbúa sem streymdu inn. Hér á eftir eru þrettán spurningar og svör sem fram komu í lok fundarins:

Hvaða niðurskurðartillögur liggja fyrir nú?
Fjóla: Hagræðingarteymi hefur verið að störfum og við höfum verið að vinna að því taka saman þær tillögur sem við þurfum að skila inn til nefndarinnar. Við munum taka þær fyrir á bæjarstjórnarfundi þann 26. apríl. Þá verðum við með pakkann alveg tilbúinn en við þurfum að skila tillögunum frá okkur 30. apríl. Við erum að vinna að alls kyns hagræðingartillögum og langmesti kostnaðurinn er í fjárfestingum, við höfum hægt á ákveðnum verkefnum og getum leyft okkur það þar sem við erum ekki bundin, en við erum ekki að fara að fjárfesta í því sem er ekki að fara að skapa okkur tekjur eða er ekki grunnþjónusta eins og til dæmis frístundamiðstöð og fjárfestingum sem voru á áætlun munum við ýta á undan okkur. Við erum auðvitað bundin eins og í Stekkjaskóla og í fráveitumálum og þar munum við halda áfram. Það er mjög nauðsynlegt að halda þjónustu við íbúa og við munum gera það.

Kemur til greina að loka skólahúsnæðinu á Eyrarbakka?
Fjóla: Við erum núna með fjóra mjög flotta grunnskóla sem eru mis ásetnir og það verður þannig áfram í svona sveitarfélagi sem er ört vaxandi. Við fáum stjórnendur með okkur í lið til þess að skoða möguleika á hagræðingu án þess að skerða lögbundna þjónustu því það er auðvitað okkar fremsta fólk sem við erum að tala um í grunn- og leikskólum og þar erum við ekki að fara að skerða þjónustu þó svo að við hagræðum eins og við getum því það er allstaðar möguleiki til hagræðinga. En það er ekki inni í hagræðingapakkanum núna að loka skólahúsnæðinu á Eyrarbakka.

Uppsagnir eru yfirvofandi. Mun þá bæjarstjórum fækka um einn?
Fjóla:
Það var einn sem hætti um áramót.

Kemur til greina að selja Selfossveitur?
Fjóla: Það hefur ekkert komið til tals og er ekki inni í þessum hagræðingartillögum. Við erum bara að koma með þær tillögur sem forstöðumenn hafa komið með sem hagræðingar innan sinna deilda. Þau hafa komið með mjög góðar tillögur sem við viljum fara með áfram.

Mun þurfa að segja upp starfsfólki sem vinnur fyrir Árborg?
Fjóla:Ég get ekki sagt hvort og hverjir það verða en það er óhjákvæmilegt að það verði einhverjar uppsagnir. Við erum með ráðningarbann og höfum verið að skoða allar stöður og ef einhver segir upp þá skoðum við það með viðkomandi sviðsstjóra hvort möguleikar á hagræðingum eða breytingum séu til staðar. Við höfum verið að reyna að fækka stöðugildum án þess að það sé gert á sársaukafullan hátt.

Á að lækka laun bæjarfulltrúa?
Fjóla:Laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna voru öll lækkuð þann 1. mars.
Bragi: Við erum nú þegar búin að lækka laun og þóknanir bæjarstjórnar og bæjarstjóra um 5% sem skilar sér í 21 milljón inn í hagræðingarpakkann.

Mætingin var góð, auk fundargesta á Hótel Selfossi voru yfir 400 manns sem fylgdust með fundinum í gegnum streymi. Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

Hvaða fjárfestingum er hægt að fresta?
Bragi: Nú þegar erum við meðal annars búin að fresta uppbyggingu á frístundamiðstöð sem var fyrirhuguð. Við erum í samstarfi við starfsmenn sveitarfélagsins að finna lausnir á því hvernig er mögulegt að nýta betur þá fermetra sem sveitarfélagið á.

Hvers vegna fá 8.-9. bekkur ekki unglingavinnu?
Bragi: Okkur þykir ömurlegt að þurfa að bjóða upp á minni sumarvinnu fyrir unglingana okkar. Það er engin léttúð að taka slíkar ákvarðanir en þetta er ein af þeim aðgerðum sem við þurfum að grípa til. Með þessu þurfum við að ráða færri sumarstarfsmenn með gríðarlegum kostnaði fyrir sveitarfélagið. Á móti viljum við koma með mótaðgerðir, þjónustu í félagsmiðstöðinni sem er töluvert ódýrara þannig að krakkarnir hafi eitthvað við að vera.

Hvaða eignir á að selja?
Bragi: Við erum að íhuga sölu á eignum og það er verið að skoða hvaða eignir það geta verið.

Kemur til álita að fækka bæjarfulltrúum?
Bragi: Það var samþykkt á síðasta kjörtímabili að fjölga bæjarfulltrúum upp í 11 samkvæmt reglum um sveitarfélög og þar af leiðandi getum við ekki fækkað þeim.

Bragi Bjarnason svarar spurningum íbúa. Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

Hver var lokakostnaður við fjölnota íþróttahúsið á Selfossi?
Bragi: Selfosshöllin kostaði um 1,5 milljarð króna.

Hvernig stöndum við varðandi leikskólana?
Fjóla: Við stöndum vel, við stöndum bara svipað og við höfum gert síðustu ár. Eftir að Stekkjaskóli opnaði erum við með húsnæðið sem hýsti skólann áður og þar ætlum við að opna tvær leikskóladeildir í ágúst líklegast sem mun tilheyra Jötunheimum og þaðan höfum við möguleika á að fara í fleiri deildir þannig að við stöndum mjög vel þar.

Stendur til að hækka fasteignagjöldin?
Fjóla: Fasteignagjöldin munu haldast eins og þau eru út þetta ár en miðað við gríðarlega hækkun á fasteignamati þykir mér mjög líklegt að þau muni hækka aftur eftir ár.

Fá íbúar að kjósa um stærstu niðurskurðartillögurnar?
Fjóla: Íbúar eru búnir að kjósa, þið kusuð okkur. Við erum öll að vinna saman. Við stöndum í brúnni og ætlum að gera þetta okkur öllum til hagsbóta því að við höfum mikla trú á því sem liggur fyrir og ég hef trú á því að við munum sigla út úr þessu fyrr en við ætlum okkur.

Fleiri myndbönd